Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

AGS ræður ríkisstjórnum frá því að niðurgreiða olíu

13.10.2021 - 15:19
Innlent · Olía · Orka · verðlag
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ræður ríkisstjórnum frá því að niðurgreiða eldsneyti til þess að bregðast við hækkandi verði. Sjóðurinn gaf það út í dag að frekar ætti að hjálpa þeim sem mest þyrftu á að halda og yrðu verst úti vegna verðhækkana. Almennar niðurgreiðslur á orku væru óhagkvæmar og nýttust ekki síst þeim sem síst þyrftu.

Olíuverð í heiminum hefur hækkað hratt á síðustu vikum og náð hæðum sem ekki hafa sést á síðustu árum. Paulo Medas, yfirmaður fjármáladeildar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sagði í dag að eina leiðin til að takast á við óstöðugleika í orkuverði væri að auka notkun á endurnýjanlegri orku.

Greint var frá því fyrr í dag að bensínverð á Íslandi hefði hækkað um 40 krónur frá áramótum vegna hækkunar á heimsmarkaðsverði. Runólfur Ólafsson, formaður Félags íslenskra bifreiðaeigenda, hvatti stjórnvöld í dag til að bregðast við með því að lækka álögur á eldsneyti.
 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV