Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Viðurkenning ríkis Talibana ekki til umræðu

Taliban fighters take control of Afghan presidential palace after the Afghan President Ashraf Ghani fled the country, in Kabul, Afghanistan, Sunday, Aug. 15, 2021. (AP Photo/Zabi Karimi)
 Mynd: AP
Fulltrúar Talibana funda nú með sameiginlegri sendinefnd Bandaríkjanna og Evrópusambandsins í Katar. Ný stjórnvöld í Afganistan sækjast eftir viðurkenningu alþjóðasamfélagsins og neyðaraðstoð vegna fátæktar og mikilla þurrka.Fulltrúi Evrópusambandsins segir ekki á dagskrá fundarins að samþykkja ríki Talibana.

Vöruverð hefur hækkað mjög í Afganistan og atvinnuleysi er mikið. Sjóðir ríkisins í erlendum bönkum eru óaðgengilegir Talibönum.

Brýnast er að tryggja mannréttindi í Afganistan að mati vestrænu sendinefndarinnar og að koma í veg fyrir að landið verði griðastaður hryðjuverkasamtaka. Nabila Massrali fulltrúi Evrópusambandsins segir samræðurnar í Katar ekki snúast um viðurkenningu stjórnar Talibana.

Antonio Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hvetur ríki heims til að leggja fram fjármuni til aðstoðar Afgönum. Hann er sömuleiðis harðorður í garð Talibana vegna brostinna loforða til afganskra kvenna.

Ursula von der Leyen forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sagði á fjarfundi með fulltrúum G20 ríkjanna að allur stuðningur sambandsins rynni beint til aðstoðar við Afgani gegnum hjálparstofnanir.

Stjórn Talibana kæmi hvergi nærri þeim fjármunum enda hafi hún ekki hlotið viðurkenningu sambandsins. Hún sagði skilyrði samskipta við Talibana skýr, ekki síst þegar kemur að mannréttindum. Einnig sé mikilvægt að koma á jafnvægi í landinu svo draga megi úr flæði flóttamanna.