Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Valur vann HK sannfærandi á Hlíðarenda

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Valur vann HK sannfærandi á Hlíðarenda

12.10.2021 - 21:36
Valur vann sjö marka sigur á HK í Olís deild karla í kvöld 32-25. Valur er með því komið á topp deildarinnar.

Gestirnir í HK byrjuðu betur og komust í 4-8. Valsarar hrukku þá í gírinn og náðu forystunni og leiddu með tveimur mörkum í hálfleik 16-14. Snemma í seinni hálfleik jöfnuðu HK-ingar á ný. Í kjölfarið komust Valsarar aftur yfir og juku forskot sitt jafnt og þétt. Þegar síðari hálfleikur var hálfnaður munaði 6 mörkum á liðunum 25-19. Valsarar héldu þeirri forystu og gott betur og unnu að lokum sjö marka sigur 32-25.

Valur er nú með fullt hús stiga, 6 stig eftir þrjá leiki, og fer því á topp deildarinnar með jafn mörg stig og ÍBV í öðru sætinu. HK er enn án stiga í næst neðsta sætinu eftir þrjá leiki. Benedikt Gunnar Óskarsson átti stórleik hjá Val og var markahæstur með tíu mörk og Björgvin Páll Gústavsson varði 13 skot í marki Vals með 34% vörslu. Elías Björgvin Sigurðsson var markahæstur hjá HK með 5 mörk og Kristján Ottó Hjálmsson gerði fjögur.