Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Tveggja ára barn loks útskrifað eftir COVID-sýkingu

12.10.2021 - 15:52
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Tveggja ára barn sem var lagt inn á Landspítala með COVID-19-sýkingu um miðjan september hefur verið útskrifað af spítalanum eftir þriggja vikna legu. Barnið var flutt á gjörgæsludeild að minnsta kosti í tvígang.

Valtýr Thors, barnasmitsjúkdómalæknir á Barnaspítala Hringsins, segir barnið nú hafa jafnað sig að fullu af lungnabólgu sem það fékk í kjölfar COVID-sýkingar. Bakteríusýking á borð við lungnabólgu geti tekið sig upp eftir hinar ýmsu veirusýkingar, og sé sýkingin alvarleg sé stundum þörf á langri dvöl á spítala.

Allt fram til 15. september á þessu ári hafði ekkert barn verið lagt inn á spítala vegna COVID-19, en þá voru tvö börn lögð inn sama daginn. Það eldra var unglingsdrengur sem var útskrifaður örfáum dögum síðar. Ekki er vitað til þess að barn hafi lagst inn síðan þá.

Fimm COVID-sjúklingar liggja nú á Landspítala, enginn á gjörgæslu. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV