Svona kemstu hjá því að kaupa föt sem enda á ruslahaug

Mynd: Kristinn Gauti Gunnarsson / RÚV
Með því að lesa á miða, skoða sauma, þukla og máta, ætti fólk að geta keypt sér gæðaflíkur sem ekki enda í fatafjöllum í Afríku íbúum þar til ama. Náttúruleg efni eins og ull eru best. Flíspeysur úr polyester er hægt að endurvinna en málið vandast þegar kemur að efnum sem eru úr blöndu af náttúrulegum og niðurbrjótanlegum efnum - og svo gerviefnum. Slík efni er erfitt að endurvinna.

Sífellt stærri hluti þeirra flíka, sem Vesturlandabúar eru hættir að nota og sendar eru til Afríku, er af svo litlum gæðum að fötin nýtast engum heldur safnast upp í heilu fjöllin á ruslahaugum og ógna umhverfinu. En hvernig á fólk að haga sér í fatakaupum til þess að auka ekki á þennan vanda heldur finna sér gæðaflík?

„Það er að vanda valið fyrst og fremst. Ég veit að þetta er svolítill frumskógur en það eru vegvísar. Þú þarft að vera sannfærður um að þú viljir eiga þessa flík og ætlir að eiga hana í langan tíma. Augljósu vegvísarnir um að það séu ekki gæði er að varan sé mjög, mjög ódýr,“ segir Katrín María Káradóttir, fatahönnuður og dósent við Listaháskóla Íslands. 

Guðbjörg Rut Pálmadóttir flokkar fötin sem berast Rauða krossinum og er orðin þjálfuð í að greina gæðaflíkur.

„Það er náttúrulega aðallega efni sem maður finnur strax, náttúruleg efni: Ull, bómull, silki og svo framvegis,“ segir Guðbjörg. Hör og kasmírull eru einnig náttúruleg efni. 

Guðbjörg þreifar á fötunum til þess að finna hvort efnið er gott. Þá er gagnlegt að lesa á miðann sem saumaður er innan á flíkina en þar kemur fram hvort hún er úr ull, bómull eða kannski gerviefnum eins og akrýl eða pólýester. 

Guðbjörg dregur fram köflóttan trefil sem er á söluslá í Rauðakrossbúðinni. 

„Hérna mjög gamall mohair-trefill. Hann er örugglega fimmtíu ára en hann er í fínu lagi,“ segir Guðbjörg.

En gæðin ráðast líka af saumaskapnum. Katrín er með einhvers konar slá. 

„Hér er dæmi um saumaskap sem er kannski ekki tipp topp,“ segir Katrín og bendir á faldinn sem er ekki sléttur. „Fóðrið er of stutt og það kippist svona til.“ Svo er misfella í brjóstvasanum. „Það er engin vasatuska og fóðrið pukrast svona upp úr,“ segir Katrín.

En málið vandast þegar náttúruleg efni er blönduð gerviefnum.

Katrín sýnir okkur yfirhöfn, jakka, sem virðist vera ullarjakki en er í raun blanda af ull og pólýester. 

„Jú, kemur á daginn, 53% ull og 47% polyester. Kaupi maður svona flík þá gæti hún enst mjög lengi. En einingarnar sem slíkar, textílinn er ekki auðvelt að endurvinna,“ segir Katrín.

Flíkin brotnar því ekki niður í náttúrunni og ekki er hægt að bræða hana eins og plast. Guðbjörg telur þó að jakkinn endi ekki á ruslahaugum í Afríku þar sem hann er svo hlýr. 

„Það er mest sumarflíkur fyrir okkur sem fara á þann markað,“ segir Guðbjörg.