Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Setja 138 fyrirtæki á útilokunarlista

Hús verslunarinnar
 Mynd: RÚV
Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur sett 138 fyrirtæki á útilokunarlista og þegar selt eignir að virði rúmlega þriggja milljarða króna úr eignasöfnum sjóðsins vegna útilokunarinnar. Forstöðumaður eignastýringar segir sjóðinn eiga mikið verk fyrir höndum við að útiloka að fullu fyrirtækin á listanum.

Fyrirtækin á listanum eiga það sameiginlegt að uppfylla ekki skilyrði um sjálfbærni og ábyrgar fjárfestingar samkvæmt nýrri heildarstefnu stjórnar sjóðsins um ábyrgar fjárfestingar. Fyrirtækin framleiða tilteknar vörur eða teljast brotleg við tiltekin alþjóðleg viðmið um mannréttindi og viðskiptasiðferði. Á listanum eru 88 fyrirtæki sem vinna kol, olíusand og olíuleir, 13 fyrirtæki í tóbaksframleiðslu, 22 fyrirtæki sem framleiða umdeild vopn og 15 fyrirtæki sem teljast brjóta gegn „UN Global Compact“. 

Arne Vagn Olsen, forstöðumaður eignastýringar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, segir að stefnan sem útilokunin felst í hafi tekið gildi í lok september og eignir fyrir rúma þrjá milljarða hafi verið seldar síðan þá. „Þetta eru erlendar eignir sem eru vel seljanlegar. Þetta er allt selt með bestu framkvæmd þannig að þótt við höfum selt fyrir þessa upphæð, sem er há í íslensku samhengi, þá er þetta lítið í stóra samhenginu, þetta eru litlar upphæðir í erlenda samhenginu,“ segir hann.

Markmiðið sé að losa sjóðinn alveg af eignum í fyrirtækjum á listanum og að þá þyrfti að selja eignir að virði um fjórtán milljarða í viðbót. Það setji strik í reikninginn að sjóðurinn fjárfesti í stórum erlendum hlutabréfasjóðum. „Þá þurfum við að geta fjárfest í réttum sjóðum og það er verkefnið fram undan,“ segir Arne. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV