„Klæjaði í lappirnar að setja á mig skóna og fara inná“

Mynd: RÚV / RÚV

„Klæjaði í lappirnar að setja á mig skóna og fara inná“

12.10.2021 - 19:14
Það vakti athygli í gærkvöld þegar bræðurnir Sveinn Aron og Andri Lucas Guðjohnsen lögðu upp og skoruðu fjórða og síðasta mark íslenska landsliðsins gegn Liechtenstein. Drengirnir eru auðvitað af mikilli fótboltaætt og afi þeirra, Arnór Guðjohnsen, var að vonum ánægður með frammistöðuna.

Arnór Guðjohnsen á að baki 73 A-landsleiki og skoraði í þeim 14 mörk. Sonur hans Eiður Smári átti auðvitað sömuleiðis glæstan feril og nú eru afabörnin, Sveinn Aron og Andri Lucas farnir að stíga sín fyrstu skref með landsliðinu. 

Hvernig er tilfinningin að sjá afkomendurna koma svona vel inn í liðið?
„Þetta er svolítið sérstök tilfinning og þetta er eitthvað sem þú vonar innst inni sem verður svo að veruleika. Ekki bara það mér fannst þeir báðir koma mjög vel inn í leikinn og standa sig frábærlega eins og allt liðið gerði í gær,“ segir Arnór.

En hvernig myndi Arnór lýsa þeim Sveini Aroni og Andra Lucasi?
„Sveinn er mjög ákveðinn, veit hvað hann vill. Hann er kannski svona strákur sem þarf meira að hugsa um sitt líkamlega atgervi og æfa vel og þegar hann er í toppformi stoppar hann lítið. Andri Lucas er meiri svona „pjúra senter“. Skorar alltaf eða oft og hefur svona gríðarlegt markanef eins og við köllum það. Og ef að allt gengur að óskum hjá honum, heilsa og annað, þá held ég að hann eigi eftir að raða mörgum mörkum inn á ferlinum,“ segir Arnór.

Spurður hvort annar þeirra sé líkari honum eða Eiði, pabba þeirra, grínast Arnór með að þeir séu bara blanda af honum. „Nei nei, þetta eru bara flottir strákar og við erum allir ólíkir og höfum allir okkar stíl og það er frábært,“ segir hann

En hvar skyldi mark afastrákanna í gær flokkast í samanburði við önnur
Guðjohnsen-mörk sem hafa verið skoruð í íslensku landsliðstreyjunni?

„Mér finnst alltaf flottustu mörkin þegar þú skorar úrslitamörkin í einhverjum leik alveg sama hvernig að lítur út. Það gefur alltaf ekta tilfinningu. En auðvitað fyrir þá tvo í gær að ná þarna vel saman strax og finna hvorn annan og klárar Andri þetta með marki var náttúrulega bara tær snilld,“ segir Arnór.

Þú hefur ekkert beðið Eið um að fá að vera á hliðarlínunni líka?
„Ég get alveg sagt þér það að mig klæjaði í lappirnar að setja á mig skóna og fara inn á en það er víst búið,“ segir Arnór léttur að lokum.