Hundruð til viðbótar verða að forða sér

12.10.2021 - 17:01
epa09514893 View of a stream of lava from Cumbre Vieja volcanic eruption in La Palma, Canary Islands, Spain, 09 October 2021. Part of the volcanic cone collapsed causing a new stream of lava that is provoking tremendous destruction and making it harder for the scientists to work in the area.  EPA-EFE/Miguel Calero
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Sjö til átta hundruð íbúum Kanaríeyjarinnar La Palma var í dag skipað að forða sér að heiman vegna hraunstraums frá eldfjallinu Cumbre Vieja. Hraunið hefur þegar eyðilagt tólf hundruð íbúðarhús og aðrar byggingar á eyjunni. Það þekur orðið sex hundruð hektara og virðist ekkert lát á straumnum.

Á sjöunda þúsund eyjarskeggjar hafa hrakist að heiman vegna eldsumbrotanna. Almannavarnir birtu tilkynningu á samfélagsmiðlum í dag þar sem fram kom að útlit væri fyrir að straumurinn ætti eftir að eyðileggja enn fleiri hús. Því var fólki ráðlagt að forða sér með eigur sínar og gæludýr. Það á að koma saman á ákveðnum stað í bænum Los Llanos de Aridane á vesturhluta eyjarinnar.

Í gær var um það bil þrjú þúsund manns skipað að halda sig innandyra þegar hraun fór yfir sementsverksmiðju á La Palma. Óttast var að við það leystust eitraðar lofttegundir úr læðingi.