Heyskapur í október

12.10.2021 - 13:05
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Í Grýtubakkahreppi við Eyjafjörð er enn verið að heyja. Venjulega er heyskap lokið í september og heyrir það til algjörra undantekninga að bændur standi í heyskap um miðjan október.

Óvanaleg haustverk

Þórarinn Ingi Pétursson, bóndi á Grund, segir að haustverkin séu heldur óvanaleg þetta haustið. Þar sem enn sé mikið gras á túnum hafi verið farið í að hreinsa þau svo ekki verði mikil sina á þeim næsta vor.

„Það bara spratt svo mikið í haust og það var ekki annað verjandi en að hreinsa túnin. Fyrst að svona gaf í veðri þá var farið í það,“ segir Þórarinn.

Vel settir með heyfeng

Þórarinn segir að menn séu vel settir með heyfeng eftir þetta óvenju góða sumar á Norðurlandi. Hann segist ekki muna eftir jafn góðu sumri hvað sprettu varðar. „Yfirleitt eru menn nú búnir með seinni slátt svona um 20. ágúst og það er ekkert óalgengt að menn séu að taka þriðja slátt fram í september. En það heyrir nú held ég til undantekninga að við séum að standa í þessu um miðjan október eða að nálgast hann.“

Í lok september kólnaði nokkuð í veðri og snjóaði, heygæði eru því eftir því. „Þriðji sláttur er nú oft ekkert neitt dásemdarfóður 
en þetta er ágætt með,“ segir Þórarinn.

 

 

Anna Þorbjörg Jónasdóttir