Gunnar Bragi birtir tövupóstinn sem Birgi sárnaði

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Gunnar Bragi Sveinsson, fráfarandi þingmaður Miðflokksins, sendi þann tölvupóst sem Birgir Þórarinsson, fyrrverandi þingmaður flokksins, segir að hafi gert útslagið og orðið til þess að hann ákvað að skipta yfir í Sjálfstæðisflokkinn. Gunnar Bragi greindi frá þessu í lokuðum Facebook-hópi Miðflokksmanna.

Vistaskipti Birgis hafa vakið mikla athygli. Hann var kosinn á þing fyrir Miðflokkinn fyrir réttum þremur vikum en tilkynnti á laugardag að hann væri genginn í Sjálfstæðisflokkinn. Ástæðan væri öðrum þræði Klaustursmálið en þó einnig að unnið hefði verið gegn honum innan flokksins.

Í viðtali í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun sagði Birgir að allt frá áramótum hefði verið barist gegn honum innan flokksins og að veist hefði verið að fólki í uppstillingarnefnd eftir að nefndin stillti Birgi upp í efsta sæti á lista flokksins í Suðurkjördæmi.

Sagði hann enn fremur í viðtalinu að tölvupóstur frá stjórnarmanni flokksins fimm dögum fyrir kosningar hafi gert útslagið, en þá hafi verið of seint að segja sig úr flokknum fyrir kosningar.

Tveggja setninga aðför

Gunnar Bragi Sveinsson, fráfarandi þingmaður og stjórnarmaður í Miðflokknum, greinir frá því í lokuðum Facebook-hóp Miðflokksmanna að hann sé umræddur stjórnarmaður. Birtir hann póstinn enn fremur:

Sæl. Samþykki listana en geri athugasemd við framkvæmdina í Suðurkjördæmi. Tel hana ekki í samræmi við góða málsmeðferð og hæpið að hún standist lög flokksins. Kv. Gunnar Bragi

„Þetta er nú öll aðför yfirstjórnar flokksins. Tvær setningar frá fráfarandi stjórnarmanni sem í þessum tveimur setningum veitir samþykki sitt og stuðning við listann sem Birgir Þórarinsson leiddi,“ skrifar Gunnar Bragi í færslunni.

Ekki hefur náðst í Gunnar Braga til að leita svara við því hvað hann taldi athugavert við málsmeðferðina hjá uppstillingarnefnd í Suðurkjördæmi.

Stillt upp í öllum kjördæmum

Stillt var upp á lista flokksins í Suðurkjördæmi, sem annars staðar, og sóttust tveir eftir efsta sætinu, Birgir og Karl Gauti Hjaltason. Fór svo að uppstillingarnefnd ákvað að Birgir skyldi skipa efsta sæti en Karl Gauti var hvergi sjáanlegur.

Karl Gauti sóttist síðar eftir efsta sætinu í Suðvesturkjördæmi og fékk það. Gunnar Bragi hafði verið oddviti í því kjördæmi, en hafði áður gefið út að hann hygðist hætta á þingi.