Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Engin sjáanleg merki um yfirvofandi eldgos við Öskju

12.10.2021 - 12:28
Innlent · Askja · eldgos · hálendið · Náttúra · norðurland
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Kjartansson
Sérfræðingur Veðurstofunnar, sem er að störfum við Öskju, segir engin sjáanleg merki um yfirvofandi gos. Land hefur risið um fjórtán sentimetra við Öskju frá því í ágúst.

Setja upp mæla og vefmyndavélar

Þrír starfsmenn Veðurstofunnar fóru að Öskju á sunnudag og eru að ljúka viðgerðum og uppsetningu gps-mæla og vefmyndavéla, svo hægt sé að fylgjast með landrisinu í vetur.

Mælitæki Veðurstofunnar sýndi um tíu til tólf sentimetra ris í lok september, skömmu áður en það bilaði. „Það virðist hafa skemmst radíó uppi á endurvarpanum sem talar við allar stöðvarnar sem eru inni í Öskjunni og við skiptum um það radíó og þá komst allt í gang aftur,“ segir Benedikt G. Ófeigsson, sérfræðingur á sviði jarðskorpuhreyfinga hjá Veðurstofunni.

Óvissustig Almannavarna er í gildi vegna landrissins við Öskju. Á laugardag varð þar skjálfti að stærðinni þrír, sem er stærsti skjálfti á svæðinu í meira en tuttugu ár. Talið er að skjálftavirknin tengist kvikuinnskoti. Benedikt segir engin sjáanleg merki um virknina. „Ég er ekki að sjá að það séu neitt allavega sjáanlegar breytingar á jarðhita þarna, allavega í bili, það virðist allavega ekki vera að það séu orðin nein sýnileg merki um að eitthvað sé í gangi, einungis þetta landris og svo náttúrulega orðin svolítið óvenjuleg skjálftavirkni þarna,“ segir Benedikt. Hann hafi sjálfur ekki orðið var við jarðhræringar frá því þeir komu á staðinn á sunnudag. „Við finnum þetta ekkert nema bara í gegnum mælitækin.“

Bestu hugsanlegu vetraraðstæður

Vetrarveður er á hálendinu. Benedikt segir aðstæður á svæðinu góðar, þrátt fyrir svolítinn kulda og ís. „Logn og blíða og gott færi að keyra á snjó, bara mjög auðvelt að fara um og vinna. Þetta voru eiginlega bara bestu vetraraðstæður sem hægt er að komast í, í gær og í dag held ég.“

Landris við Öskju þykir benda til þess að kvika sé að safnast fyrir undir henni. Talið er að kvikan liggi á tveggja til þriggja kílómetra dýpi. Askja gaus síðast 1961. Engin mælitæki voru þar á þeim tíma. 

Mynd með færslu
 Mynd: Bergur Einarsson og Benedikt G.
Starfsmenn Veðurstofu Íslands að störfum við Öskju