Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Brokkolí verður þrefalt dýrara með innflutningstollum

Mynd: RÚV / RÚV
Verð innflytjenda á brokkolí eða spergilkáli þrefaldast næstum þegar tollar og gjöld hafa verið lögð ofan á. Garðyrkjubændur eru ekki hlynntir því að innflutningstollar leggist á sjálfkrafa á ákveðnum dagsetningum. 

Blómkál, spergilkál og sellerí er þessa dagana nánast eins og munaðarvara. Innlend framleiðsla er löngu uppseld og lítið er flutt inn vegna hárra tolla. Lögum var breytt fyrir tæpum tveimur árum. Áður gat landbúnaðarráðherra lagt á tolla ef innlend framleiðsla var næg og fellt niður ef íslenskt grænmeti var uppurið. Núna er það þannig að tollarnir leggjast sjálfkrafa á innflutning á blómkáli og sellerí fimmtánda ágúst en fyrsta júlí á spergilkál. 

Ef innflytjandi ætlar að kaupa spergilkál þarf hann að greiða verðið sem seljandinn setur upp. Segjum að það sé 200 krónur kílóið. Ofan á það reiknast þrjátíu prósenta tollur. Þá er kílóverðið komið upp í 260 krónur. Ofan á það leggst svo kílógjald, 282 krónur. Við þetta er verðið á kílóinu komið upp í 542 eða orðið nærri þrefalt hærra en kaupverðið. Þá á eftir að greiða fyrir flutning á kálinu til Íslands, pökkun, dreifingu og smásöluálagningu. 

Þau sem flytja inn grænmeti eru ekki ánægð með tollafyrirkomulagið og grænmetisbændur eru sama sinnis.

„Það gengur í rauninni ekki að bjóða upp á það umhverfi að það séu tollar á tegundir sem ekki eru til eða ekki nóg til af. Og þessu verður að breyta. Við erum búin að vekja athygli á þessu. Þetta er öllum til vansa og neytendur ekki ánægðir og heldur ekki garðyrkjubændur. Það er enginn ánægður með þetta. Það eru allir sammála um að það þurfi að laga þetta,“ segir Gunnlaugur Karlsson, framkvæmdastjóri Sölufélags garðyrkjumanna.

Hvernig mynduð þið vilja að þetta væri?

„Það er spurning um sveigjanlegt kerfi eins og var. Eða hreinlega að fara leið eins og að bjóða upp á ræktunarstyrki í ákveðnum tegundum og jafnvel fella niður tolla á nokkrum tegundum alfarið, eins og gert var í tómötum, gúrku og papriku, sem engir tollar eru á,“ segir Gunnlaugur.

Tollarnir falla niður á föstudag og á þriðjudaginn eftir viku má búast við tollfrjálsu innfluttu blómkáli og spergilkáli í verslanir.