Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Bækur um mikilvægi hugarfarsins og ímyndunaraflsins

Mynd: norden.org / norden.org

Bækur um mikilvægi hugarfarsins og ímyndunaraflsins

12.10.2021 - 16:33

Höfundar

Báðar bækurnar sem Norðmenn tilnefna til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs að þessu sinni eru ætlaðar stálpuðum lesendum en þó ekki sama aldurshópnum. Báðar fjalla bækurnar um áföll og missi en við afar ólíkar aðstæður og er í báðum sögunum athygli beint að mikilvægi þess hvernig hugsað er um það sem gerst hefur til þess að mega takast á við það og halda áfram.

Skáldsagan Min venn piraten eftir Ole Kristian Löyning með myndum eftir Ronny Haugelanda hefst á því að André, tíu, tólf ára, er ásamt foreldrum sínu á leið í sumarbústað. Það verður slys, alvarlegt umferðarslys, með þeim afleiðingum að báðir foreldrarnir látast og André slasast illa. Hann nær sér nokkurn veginn um síðir. Það er hins vegar erfiðara að sætta sig við að þegar tveir af þremur eru horfnir er bara ein eftir. 

André flyst til föðurbróður síns sem í fjölskyldunni hefur aldrei verið kallaður annað en sjóræninginn enda alla sína tíð siglt um heimsins höf. Nú er hann orðinn slitinn, sestur í helgan stein í hjólhýsi nálægt ströndini þar sem skútan hans Nemo er bundin við bryggju. 

Eins og gefur að skilja þurfa bæði André og sjórænginginn vinur hans að læra ýmislegt til að samlíf þeirra megi ganga upp. André þarf til að mynda að taka sjálfur ábyrgð á ýmsu sem foreldrar hans höfðu áður séð um, eins og að vakna í tæka tíð í skólann á morgnana og það sama má segja um sjóræningjann sem nú þarf  að mæta á foreldrafundi í skóla Andrés og aðeins með herkjum fær hann í gegn að vikuáætlanir og aðrar upplýsingar berist honum í póstkassann en ekki í gegnum tölvuský. En þótt sjóræninginn kunni ekki á tölvuský og samskiptamiðla hefur hann sannarlega marga fjöruna sopið og hefur frá mörgu að segja frá öllum sínum sjóferðum. Meðal annars segir hann André frá félaga sínum Bátsmanninum sem hann skildi við á einni af Maldive eyjum þar sem félaginn tók saman við konu og saman urðu þau bestu töfralæknar á þessari eyju.

Þegar sjóræninginn verður veikur og næsta dauðvona er augljóst að það eina í stöðunni er að gera skútuna Nemo sjófæra og sigla til Maldive eyja til hins mikla töfralæknis, félaga sjóræningjans. Margt fer öðru vísi en ætlað er þótt sjóferðin, sem er bæði löng og viðburarrík, takist giftusamlega.

Sjóferðin og fortíð frændans sjóræningjans myndar spennuboga sögunnar sem fjallar hins vegar fyrst og fremst um sorg og áföll og hvernig má takast á við slíkt. Aðferðir sjóræningjans við að gera góðan og gegnan mann úr frændanum unga sem honum hefur verið trúað fyrir eru vissulega ekki í anda neins konar réttrúnaðar um framkomu við börn, en þær eru djúphyglar og vekja að líkindum upp ýmsar spurningar í huga ungra lesenda. Fullorðnum lesanda verður hugsað til Línu Langsokks og fleiri bóka Astridar Lindgren en líka til bóka eins og Gúmmí-Tarzans Ole Lunds Kirkegaards.

Mynd með færslu
 Mynd: norden.org - noreden.org
Ole Kristian Löyning og Ronny Haugeland

Ole Kristian Löyning er kennari að mennt og starfi en hefur á síðustu árum sent frá sér stöku barnabók sem greinilega búa yfir íhygli og forvitni um leið og lesendur er teknir alvarlega og í samræmi við það klisjum og forskriftum hent út í hafsauga. Ronny Haugeland, sem teiknar mjög skemmtilega myndirnar í bókinni Min venn piraten er velþekktur teiknimyndasöguhöfundur í Noregi og birtast ræmur eftir hann m.a. í Dagbladet. Það má alveg búast við því að Ole Kristian Löyning og Ronny Haugeland verði kallaðir upp á á sviðið í Skuespilhuset í Kaupmannahöfn þriðja nóvember næstkomandi þegar meðal annarra verðlauna Norðurlandaráðs Barna og unglingabókmenntaverðlaunin verða afhent.

 

Mynd: Studio Hjelm/norden.org / Studio Hjelm/norden.org
Peter Franziskus Strassegger

 

Skáldsagan Alexander mikli, sem Norðmenn leggja fram  er ekki söguleg skáldsaga um hinn forna konung Makedóníu  sem á sínum tíma rúmlega 300 árum fyrir Krist réði fyrir stærsta samfellda ríki heims fyrr og síðar.

Alexander mikli eftir Peter Strassegger er bók um flóttafólk en á síðustu misserum hafa bækur, ekki síst fyrir unglinga og ungt fólk, tekið að fjalla um það málefni frá ólíkum hliðum til upplýsinga og fróðleiks fyrir þá sem við góðar aðstæður heima hjá sér í vestrænum ríkjum þurfa að takast á við þessa viðbót mannlífsflórunna af skilningi og næmi. 

Alexander mikli segir frá  Alexander sem kemur með foreldrum sínum upp til Evrópu. Móðirin er norsk en faðirinn kemur frá landi sem gæti verið Sýrland eða Írak og er aldrei nefnt í sögunni. Fjölskyldan hefur yfirgefið það land og er í sögubyrjun stödd í einhverju millilandi.

Alexander er augljóslega sérkennilegur drengur, jafnvel á einhverfurófi. Hann er bráðgáfaður sem fer ekki framhjá kennurum hans í skólanum sem hann gengur í. Eineltið sem hann verður fyrir fer hins vegar gersamlega framhjá kennurunum. Og einhvern tíma keyrir um þverbak og Alexander tekur á móti með alvarlegum afleiðingum fyrir ógnvald hans og reyndar Alexander líka. Atvikið verður til þess að móðirin flýr með drenginn til Noregs. Í bænum litla í Noregi eignast Alexander kunningja, Aman. Aman er flóttastrákur, líklega fylgdarlaus, og hefur hefur verið komið fyrir í fóstri. Sá er lagður í einelti í skólanum og verður feginn að fá bandamann í Alexander.  

Það eru átök í uppsiglingu og Alexander kaupir sér hníf. Lesandi býst við skelfilegu uppgjöri. En sagan fer öðru vísi. Alexander áttar sig á að það er ekki hann sem ræður þróun þessa máls heldur hatrið og hefndin sem aldrei lýkur nema eitthvað róttækt sé gert. Hann byrjar að berjast við leiðtoga heimastrákanna en kastar svo frá sér hnífnum og býður sættir. Hinn strákurinn gengur í skrokk á honum og misþyrmir Alexander sem endanum er þó sá sem vinnur sigur. Honum opnasr nýir heimar tengsla og aðlögunar í stað þess að þurfa að fara á upptökuheimili eða unglingafangelsi og færast lengra út á jaðarinn. Það að leggja niður vopn hefur gert hann að Alexander að Alexander mikla.

Höfundur skáldsögunnar Alexander mikli, Peter F. Strassegger er  hálfgerður huldumaður í norskum bókmenntum. Hann er fæddur í Austurríki en hefur alið allan sinn aldur í Noregir. Fyrir fyrstu skáldsögu sína Stasia fékk hann árið 2012 Tarjei Vesaas verðlaunin fyrir bestu frumraun. Alexander den store er fyrsta unglingabók hans. Hann er sálfræðingur að mennt og starfar sem slíkur og skrifar á nýnorsku en Norðmenn leitast við að láta tilnefningar sínar skiptast jafnt milli ríkismálanna tveggja.