Allt að fjórtán sentímetra landris við Öskju

Myndir úr Sumarlandanum 2021 https://www.ruv.is/frett/2021/07/21/fa-aldrei-nog-af-obyggdunum
 Mynd: Sturla Holm Skúlason - RÚV
Mælitæki Veðurstofunnar við Öskju sýnir að land þar um slóðir hefur risið allt að 14 sentímetra frá í byrjun ágúst, en tækið sýndi ris um tólf sentímetra í lok september, skömmu áður en það bilaði.

Nú er það komið í lag og unnið að því að setja upp fleiri mæla og vefmyndavélar við fjallið en starfsmenn Veðurstofunnar verða á svæðinu í dag og á morgun. 

Mjög mikil skjálftavirkni mældist við Reykjanestá í nótt og í morgun. Bjarki Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands segir þetta vera þekkt skjálftasvæði þannig að ekkert sérstakt megi lesa í virknina.

„Þetta er partur af þeirri virkni sem fylgir þessu svæði og ekkert stórt í gangi,“ segir Bjarki en auðvitað sé fylgst með.

Í gær voru fimm hundruð skjálftar á Keilissvæðinu, og rúmlega 200 frá miðnætti, sá stærsti 1,8 að stærð. Daginn þar á undan voru þeir um þúsund. Alls hafa mælst yfir 10 þúsund skjálftar þar undanfarnar tvær vikur.