Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Yfirkeyrt starfsfólk bráðamóttöku lýsir hættuástandi

11.10.2021 - 23:05
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Hjúkrunarfræðingar á bráðamóttöku Landspítalans segja að sjúklingar séu lagðir í hættu og líkur á mistökum hafa stóraukist vegna þess að hjúkrunarfræðingar og annað starfsfólk er yfirkeyrt á vöktum vikum og mánuðum saman. Stjórnendum spítalans, Landlækni og stjórnvöldum hafi ítrekað verið bent á ástandið, en ekkert breytist.

Þetta kemur fram í tilkynningu Soffíu Steingrímsdóttur, hjúkrunarfræðings á bráðamóttökunni fyrir hönd samstarfsfólks síns til fjölmiðla sem send var út í kvöld. Þar segir að fjöldi sjúklinga fari iðulega yfir 80 á dag en aðeins séu rými fyrir 36 veika og slasaða sjúklinga á deildinni. Allt að 30 sjúklingar bíða innlagnar á legudeildir dögum saman og þegar verst lætur bíða 50 sjúklingar innlagnar á dag. 

„Mánuðum, jafnvel árum saman hefur stjórnendum spítalans og heilbrigðisyfirvöldum verið full ljóst að hættuástand skapast á deildinni við þessar aðstæður.Hættuástand vegna þess að öryggi sjúklinga er ekki tryggt, vegna þess að líkur á mistökum stóraukast og vegna þess að hjúkrunarfræðingar, jafnt og annað starfsfólk er yfirkeyrt á vöktum sínum vikum og mánuðum saman. Við þessar starfsaðstæður óttast starfsfólk að gera mistök sem geta haft alvarlegar og óafturkræfar afleiðingar og þurfa að lifa með því.“ segir í tilkynningunni.   

„Daglega kemur upp sú staða að sjúkrabílar bíða með sjúklinga á börum þar sem ekki er til pláss og daglega fyllist biðstofa Bráðamóttökunnar af veiku og slösuðu fólki sem bíður allt upp í 6 klst eftir því að komast inn í skoðun, greiningu og meðferð.“ segir í tilkynningunni. 

Einnig segir að skýrslur, greinagerðir, ábendingar og minnisblöð um alvarleika stöðunnar hafi endurtekið ratað inn á borð stjórnenda spítalans, Landlæknis og heilbrigðisráðherra. Það hafi hins vegar ekki leitt til neinna breytinga og sjúklingum boðið upp á að liggja á göngum deildarinnar, í öllum skúmaskotum og jafnvel inni í kaffistofu starfsfólks og inni í herbergi ætluðu aðstandendum.

„Það ríkir sinnuleysi gagnvart Bráðamóttökunni. Það virðist enginn ætla að bera ábyrgð, það er ekki brugðist við.“ segir í niðurlagi tilkynningarinnar.