Tækifæri liggja í framtíð Grímseyjar

11.10.2021 - 08:54
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Nýr verkefnisstjóri byggðaþróunarverkefnis í Grímsey segir mikil tækifæri liggja í framtíð eyjarinnar. Áskoranir séu þó nokkrar en lausnir liggi í frumlegri og skapandi hugsun og því að festast ekki í úreldum hugmyndum um mennta- og atvinnumál.

Þurfum að nota frumlega og skapandi hugsun

Arna Björg Bjarnadóttir hefur tekið við verkefninu sem nefnist Glæðum Grímsey og er hluti af Brothættum byggðum. Hún segir eitt stærsta verkefnið vera að gera ungu fólki kleift að búa í Grímsey allt árið um kring, að það geti sinnt sinni vinnu þaðan og haft börn í skóla. Nú fara börn úr eynni í skóla á Dalvík eða á Akureyri.

„Ég held að við þurfum að hugsa þetta svolítið upp á nýtt, horfa á hvað er að gerast, ég meina, við erum komin með skóla í skýjunum. Nota svolítið frumlega hugsun eða skapandi hugsun til þess að finna út úr því.“

Önnur sín á lífið

Arna segir að viðhorf fólks til lífsins hafi breyst nokkuð og það íhugi meira hvað það vilji fá út úr lífinu.

„Ég held að við eigum eftir að sjá þónokkra breytingu á hvað fólk tekur sér fyrir hendur. Nú eru fleiri farnir að starfa sjálfstætt með sín verkefni og þess háttar og flytja út á land og flytja úr borgunum. Covid hefur breytt miklu. Það má vel vera að einhverjir sjái tækifæri í Grímsey,“ segir Arna.

Opið er fyrir umsóknir í frumkvæðissjóð Brothættra byggða í byggðaþróunarverkefninu Glæðum Grímsey á vef Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE).

 

Anna Þorbjörg Jónasdóttir