Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Svipað og að falla ofan úr Hallgrímskirkjuturni

11.10.2021 - 22:06
Mynd: Þyrluþjónusta Helo / Helo
Fólk gerði sér að leik að ganga upp á gíg eldstöðvarinnar í Geldingadölum í dag. Stórhættulegt athæfi, segir eldfjallafræðingur. Ítrekað hefur verið varað við því að ganga á hrauninu. 

„Menn verða gæta sín hvar þeir stíga niður og ekki fara of nálægt gígnum af því að þar er þetta skelhraun og það er stórhættulegt,“ segir Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur. „Þetta hraun, það er þunn skel sem er utan á sem er storkið hraun, en síðan er bara stór gasbóla í miðjunni og hún getur verið allt að nokkrir metrar á dýpt. Þegar maður stígur á hana þá fellur hún gjarnan saman og ef það er stórt gímald undir þá geturðu fallið ofan í það,“ segir Þorvaldur. Hann segir mjög algengt að fólk fótbrjóti sig ef skelhraunið brotnar undan því með þessum hætti, til dæmis á eldgosaslóðum á Havaí.

Aldrei séð eins marga ganga á hrauninu

Um tvöleytið í dag sást til manns ganga á gígbrúninni í Geldingadölum. Farþegi í þyrluflugi frá Þyrluþjónustunni Helo náði myndum af uppátækinu. Þyrluflugmaðurinn, Sólveig Pétursdóttir, segist aldrei hafa séð jafn mikið af fólki á hrauninu, en um klukkan hálf fjögur í dag náðist mynd af tveimur til viðbótar ganga upp gíginn.

Þorvaldur segir að það sé einungis tímaspursmál hvenær gígbarmurinn brotnar og hrynur. „Og ef þú ert á spildunni sem hrynur þá ferð þú niður með og þetta er svona svipað og að falla niður úr Hallgrímskirkjuturni, því að gígurinn er allt að hundrað metra djúpur.“

Losnar aldrei við áhrif brennisteinseitrunar

Þá sé einnig hætta af brennisteinsmengun á svæðinu. „Það er ennþá að streyma gas upp úr gígnum,“ segir Þorvaldur. „Að verða fyrir brennisteinsmengun er ekkert grín, af því að það er langvarandi ástand. Ef þú færð það einu sinni þá ertu með það það sem eftir er.“

Ekkert hraunrennsli hefur verið í Geldingadölum í meira en þrjár vikur, en kviku eða glóðar hefur orðið vart í brekkunni milli Geldingadala og Nátthaga. „Og þar sem er heit kvika, þar er alltaf hætta,“ segir Þorvaldur.