Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Söfnun og sáning birkifræja er fjölskylduverkefni

11.10.2021 - 07:59
Mynd: Freyr Arnarson / Freyr Arnarson
Mikið er af birkifræi á Norðurlandi- og Austurlandi og því eru íbúar þar hvattir til að fara út og tína. Minna er af fræjum á sunnanverðu landinu en fólk þar getur einnig látið til sín taka, þótt í minna mæli sé. Verkefnastjóri segir birkitínslu geta verið skemmtilegt fjölskylduverkefni.

Tilgangur söfnunarinnar er að breiða út birkiskóga landsins. Birkifræi má sá beint í jörð og því auðvelt að koma birki í skóglaust land. 

Kristinn H. Þorsteinsson, verkefnisstjóri Birkiskóga segir auðvelt að sækja sér birkikassa til söfnunar sem fást víða í verslunum. Kristinn segir birkisöfnun vera fjölskylduverkefni. 

„Því að börn hafa mjög gaman af þessu, bæði að safna og sá. Þau skynja þetta verkefni afskaplega vel og eru fljót að tileinka sér þetta og hafa svolítið gaman að þessu.“ 

Kristinn segir birki vera víða að finna. „Það er bara að velja sér heilbrigðar plöntur til að safna af. Annað hvort fer fólk á beitarlaust svæði eða þar sem er ekki beit og sáir því bara sjálfur eða þú getur komið pokunum í tunnur fyrir utan þessar verslanir sem eru að afhenda þessi box.“ 

Á síðasta ári söfnuðust að minnsta kosti 50 milljón birkifræ.