Íþrótta- og félagsstarf aftur í gang á Akureyri

Mynd með færslu
 Mynd: Sölvi Andrason - RÚV
Ekki er lengur talin þörf á að takmarka æskulýðs-, íþrótta- og félagsstarf barna og unglinga á grunnskólaaldri á Akureyri. Þetta er niðurstaðan eftir fund aðgerðarstjórnar Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra með fulltrúum landlæknis og rakningateymisins.

Fyrir viku gaf aðgerðastjórnin út þau tilmæli að þessi starfsemi yrði takmörkuð, svo vinna mætti bug á fjölda smita sem flest reyndust í hópi grunnskólabarna.

„Fjöldi smita hélt áfram að vaxa og allt að 1300 manns voru í sóttkví á tímabili en nú erum við farin að sjá þróun til betri vegar þó svo að fjöldi smitaðra einstaklinga í umdæminu sé með hæsta móti,“ segir meðal annars í tilkynningu sem Lögreglan á Norðurlandi eystra sendi frá sér í dag.

„Aðgerðarstjórn LSNE fór yfir stöðuna nú í morgun ásamt fulltrúum frá Landlækni og rakningateyminu. Niðurstaðan var sú að ekki væri talin þörf á að viðhalda þeim tilmælum sem gefin voru fyrir viku síðan hvað varðar æskulýðs-, íþrótta- og félagsstarfi barna og unglinga á grunnskólaaldri.“

Áfram hvetur aðgerðarstjórnin fólk til að fara varlega og huga vel að persónulegum smitvörnum, sérstaklega þar sem ungmenni koma saman. Þá skal tryggja aðgengi að sótthreinsibúnaði á slíkum stöðum. „Þá hvetjum við alla sem hafa einhver einkenni um Covid að skrá sig í sýnatöku og foreldra til að eiga stöðugt samtal við börn sín hvað þessi mál varðar og vera ekki að mæta í æskulýðs-, íþrótta- og félagsstarf finni þau til einhverra einkenna,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir