Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Heilbrigðisþjónusta ekki eins og að kaupa vöru úr búð

Mynd: RÚV / Skjáskot
Formaður BSRB segir ekki hægt að sýna fram á með vísindalegum rökum að markaðurinn leysi vanda heilbrigðiskerfisins. Brýnt sé að tryggja fjármagn, jafna möguleika og samhæfingu kerfisins.

„Það má heldur ekki horfa á heilbrigðisþjónustu, þjónustu við sjúklinga, eða fatlað fólk eða bara þá sem þurfa á þjónustu að halda eins og það gildi sömu lögmál eins og þegar þú ert að versla þér eitthvað út úr búð,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB. 

Hún segir valfrelsi ekki alltaf í boði. Brýnt sé að jafna möguleika og tækifæri til að fá þjónustu, hver greiði fyrir hana og hver standi undir henni. 

„Og að okkar mati eru það þessi félagslegu kerfi sem eru að fara að skila mestu. Það á einfaldlega ekki að vera þannig að við - skattgreiðendur - séum að standa undir þjónustu sem einhverjir örfáir geta grætt á og eru þannig að græða á neyð annarra.“

Kjarninn sé hvort heilbrigðisþjónusta sé hagnaðardrifin eður ei. Hjúkrunarheimili séu gott dæmi um það. Sonja Ýr segir brýnt að þeir sem veiti fjármagni til þjónustunnar hafi yfirsýn svo hægt sé að tryggja samhæfingu.

Betur megi þó gera, fjarlægð virðist hafa myndast milli stjórnvalda og þeirra sem reka hjúkrunarheimili. Til að mynda séu lægstu launin þar. 

„Sem kannski leiðir okkur að verðmætamati starfa hvort það hafi áhrif hvort þú sért að sýsla með peninga eða hvort þú sért að sinna fólki í starfinu þínu,“ sagði Sonja Ýr Þorbergsdóttir á morgunvakt Rásar eitt.