Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Brexit ekki búið

11.10.2021 - 17:08
Erlent · Bretland · Brexit · ESB · Írland · Norður-Írland · Spegillinn · Evrópa · Stjórnmál
Mynd: EPA / EPA
Þegar Bretar gengu úr Evrópusambandinu í ársbyrjun í fyrra var gerð sérstök bókun um Norður-Írland til að tryggja opin landamæri milli Írlands og Norður-Írlands í anda friðarsamningsins frá 1998. En blekið var varla þornað á gjörningnum þegar breska stjórnin fór að kvarta yfir að það væri ekki hægt að framfylgja bókuninni. Brexit er því ekki búið og nú er að hefjast ein atrennan til að leysa Norður-Írlandsvandann.

 

Ómöguleg Norður-Írlands bókun að mati Breta

Bókunin um Norður-Írland er alveg ómöguleg, ekki hægt að framfylgja henni, verður að breyta henni. – Þetta hefur lengi verið sjónarmið bresku stjórnarinnar um þennan þátt útgöngusamnings Breta við Evrópusambandið og stjórnin því ekki uppfyllt kvaðir bókunarinnar.

ESB: bókunin er nákvæmlega lausnin sem Johnson vildi

Innan Evrópusambandsins benda menn á að bókunin sé nákvæmlega sú lausn sem Boris Johnson forsætisráðherra samþykkti. Tilfinningin sú að með því að kjósa aðra lausn en forverinn Theresa May hafi Johnson einfaldlega freistað þess að koma Brexit frá, eins og hann hafði lofað. Vel vitað hvað var valið, aldrei ætlað að framfylgja bókuninni heldur semja seinna um breytingar.

Brexit-lausn Breta bjó til landamæri innan Bretaveldis

Hvernig sem þarna var í pottinn búið veldur fyrirkomulagið á Norður-Írlandi enn vandræðum. Lausn Johnsons var að halda Norður-Írlandi áfram í innri markaði ESB og uppfylla þannig skilyrði friðarsamningsins frá 1998 um opin landamæri Norður-Írlands og Írlands. En þá urðu til landamæri í Írlandshafi milli Norður-Írlands í innri markaðnum og hinna hluta Bretlands utan ESB og innri markaðarins.

Bretland átti því að sinna vöru- og tollgæslu á þessum landamærum. ESB féllst í fyrsta skipti í sinni sögu á að eftirláta ríki utan ESB þessa skyldu.

Frost: bókunin bara samþykkt til að höggva á hnútinn

Á flokksþingi Íhaldsflokksins í liðinni viku hnykkti David Frost Brexit-ráðherra, áður aðalsamningamaður Breta í Brexit-viðræðunum við ESB, enn og aftur á skoðun sinni á bókuninni: hún væri alveg ótæk, henni yrði að breyta.

Já, Bretar hefðu samþykkt bókunina til að höggva á hnútinn á þessum erfiðu tímum fyrir tveimur árum og til að bjarga friðarsamningnum frá 1998.

ESB: Bretar reyndu ekki einu sinni að framkvæma bókunina

Sjónarmið ESB er að Bretar hafi ekki einu sinni reynt að framkvæma sáttmálann, ekki byggt nauðsynlega innviði í kringum landamæraeftirlitið, sem þeir féllust á með bókuninni. ESB geti til dæmis enn ekki fylgst með eftirlitinu eins og bókunin gerir ráð fyrir.

Frost vill endursemja, ESB ekki

Frost vill endursemja. Maros Sefcovic varaforseti framkvæmdastjórnar ESB hefur Brexit á sinni könnu. Hann sagði í fyrirlestri hjá írsku alþjóðastofnunni fyrir helgi að það þyrfti sameiginlegt átak ESB og Bretlands til að leysa vandann. En Sefcovic var líka alveg skýr um hvað hann vildi ekki.

Það kæmi ekki til greina að semja upp á nýtt eins og breska stjórnin segir. Aðeins þurfi viðræður um hagkvæma framkvæmd bókunarinnar.

Stefnumið ESB væntanleg á miðvikudaginn

Bretar birtu stefnumið sín í júlí. Nú á miðvikudaginn mun ESB birta sínar tillögur og síðan verða viðræður á næstu vikum, kannski niðurstaða í byrjun næsta árs. David Frost bíður ekki eftir tillögum ESB heldur mun á morgun halda ræðu í Lissabon og hnykkja á að endalausar viðræður komi ekki til greina.

Hótunin mikla, 16. greinin, er ekki mikil hótun

Hótunin mikla sem Bretar og þá einnig Frost, hika ekki við að veifa er 16. grein útgöngusamningsins, veitir báðum aðilum heimild til einhliða ákvarðana. Frost og fleiri Bretar tala gjarnan eins og sextánda greinin sé leiðin til að kippa Norður-Írlands-bókuninni úr sambandi. Það er þó ekki þannig, aðeins hægt að beita greininni á einstök afmörkuð atriði. Líka seinleg aðgerð, engin skyndilausn.

Lögsaga ESB-dómstólsins nýr ásteytingarsteinn Breta

Frost nefndi í flokksþingsræðu sinni að Bretar geti ekki unnt því að Norður-Írland sé í lögsögu ESB-dómstólsins eins og bókunin kveður á um. Sefcovic sagði í írska fyrirlestrinum að lögsaga dómstólsins sé ekki hluti af því að gera bókunina skilvirkari. Alveg óhugsandi fyrir ESB að skilja lögsögu dómstólsins frá innri markaðnum. Ótækt að fyrirtæki geti ekki fengið skorið úr um álitamál fyrir dómstólnum.

Ólík nálgun, langt á milli í einstöku atriðum

Það er því ljóst að bæði er nálgun Breta og ESB ólík, auk þess sem töluvert ber á milli í einstökum atriðum. Brexit-halinn enn nokkuð langur.