Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

„Bara malbika þetta, punktur"

Mynd: Sölvi Andrason / RÚV
„Maður fær þá tilfinningu að maður skipti ekki jafn miklu máli og aðrir,“ segir kona sem þarf að keyra um Vatnsnesveg á hverjum degi. Vegurinn hefur hríðversnað undanfarin ár.

„Um leið og það fer að rigna þá er vegurinn bara farinn"

Vatnsnesvegur er 70 kílómetra malarvegur frá Hvammstanga og út fyrir Vatnsnes. Vegurinn hefur ítrekað verið til umfjöllunar síðustu ár þar sem fjallað hefur verið um slæmt ástand hans og ítrekuð umferðarslys. Íbúar segja veginn aldrei hafa verið verri. „Um leið og það fer að rigna þá er vegurinn bara farinn. Þá bara hverfur hann. Það er rosalega erfitt vegna þess að það gengur svo illa fyrir Vegagerðina hérna hjá okkur að þjónusta veginn og halda honum við því um leið og það fer að rigna þá er vegurinn bara horfinn," segir Guðrún Ósk Steinbjörnsdóttir, grunnskólakennari og bóndi sem ekur veginn á hverjum degi.

Geta ekki beðið til 2030

Samgönguáætlun gerir ráð fyrir að þremur milljörðum króna verði varið í endurbætur á veginum. Það verður þó ekki fyrr en á árunum 2030 til 2034. Guðrún segir ekki hægt að bíða svo lengi.  „Við erum auðvitað bara ofboðslega ósátt og langþreytt á því að það sé ekki hlustað á okkur. Tíminn líður, árin líða, ástandið versnar og það virðist bara enginn ætla að gera neitt."

Ferðast með skólabíl á hverjum degi

Systurnar Arna Ísabella og Steinunn Daníela hafa ferðast með skólabíl um veginn um 80 kílómetra nær daglega í þrettán ár. „Hann fer bara versnandi. Eins og núna eftir þessa hríð sem hefur verið, maður þarf bara að keyra á tíu á sumum köflum og kaflarnir eru orðnir svo stórir að þeir fara bara að lenda saman."

Hvað viljið þið að verði gert?

„Bara malbika þetta, punktur."

Mynd með færslu
 Mynd: Sölvi Andrason - RÚV