Þó að eldvirkni hafi legið niðri í rúmar þrjár vikur er ekki búið að lýsa yfir goslokum í Geldingadölum. Talsverður hiti er enn í hrauninu og hafa almannavarnir og lögreglan á Suðurnesjum ítrekað varað fólk við því að fara út á nýja hraunið því það sé óútreiknanlegt og stórhættulegt.
Fyrr í haust sást hins vegar til manns á gígbarminum í vefmyndavél RÚV og í dag myndaði farþegi í útsýnisflugi á vegum Helo ferðaþjónustunnar annan ferðalang á þessum hættulegu slóðum eins og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði.
Hjálmar Hallgrímsson, lögreglumaður á Suðurnesjum og forseti bæjarráðs í Grindavík sagði í samtali við fréttastofu að ekkert útkall eða tilkynning hefði borist til lögreglunnar á Suðurnesjum í dag vegna þessa.