„Þetta eru svik við flokkinn og ég er flokksmaður“

Þingmann Miðflokksins grunar að Birgir Þórarinsson hafi ígrundað flokkaskipti fyrir alþingiskosningarnar. Formaður flokksins kveðst ekki hafa náð sambandi við varaþingmanninn í Suðurkjördæmi. Það sé þó brýnt. Hann kveðst bjartsýnn á framtíð flokksins.

Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins segir tímasetningu ákvörðunar Birgis Þórarinssonar að yfirgefa Miðflokkinn koma á óvart, einkum svo skömmu eftir kosningar sem raun ber vitni.

Birgir hafi þó sagt sjálfur að vistaskiptin eigi sér lengri aðdraganda. Hann segir hvern og einn þurfa eiga það við sig hvort Birgir hafi svikið flokksmenn.

„Það svona leitar að manni sá grunur að þetta hafi verið að einhverju marki ígrundað áður en að kosningum kom en þetta er auðvitað val hans sjálfs og hann verður að standa og falla með því.“

Af og frá sé að lykilmenn hafi unnið gegn Birgi og að ekkert styðji yfirlýsingar hans um kaldar kveðjur fimm dögum fyrir kosningar. Hvorki hann né Sigmundur Davíð formaður flokksins eigi þar hlut að máli.

„Ég í sjálfu sér sé ekki hvað það ætti að vera á seinni hluta síðasta kjörtímabils sem skýrir þá afstöðu hans. Samskiptin hafa verið ágæt. Mig grunar að þetta sé nú meira eftiráskýring en annað.“ 

Svik við flokkinn

Sigmundur Davíð segir athugasemdir Birgis um kaldar kveðjur snúa að tölvupósti frá fyrrverandi stjórnarmanns sem gerði athugasemdir við uppstillingu í kjördæminu, sem þó styddi listann. Hann segir brotthvarf Birgis óvænt og vonbrigði. 

„Þetta kemur í bakið á fólkið sem vann fyrir framboðið í Suðurkjördæmi undanfarnar vikur og mánuði því það hafði trú á því sem flokkurinn stendur fyrir.“ Sjálfboðaliðar hafi unnið á fimm kosningaskrifstofum í kjördæminu.

Hann segir ákvörðunina vera svik við það fólk sem hefur unnið fyrir viðkomandi á ákveðnum forsendum. „Þetta eru auðvitað svik við flokkinn, og ég er flokksmaður og þar af leiðandi má kannski segja að þetta séu ákveðin svik við mig, já.“

Hefur ekki náð sambandi við Ernu Bjarnadóttur 

Sigmundur segir Birgi hafa allt síðasta kjörtímabil verið hluti af þingflokknum og enginn hafi barist gegn honum, frekar hafi verið liðkað fyrir störfum hans varðandi alþjóðmál.

„Við vöktum nótt eftir nótt í umræðum um þriðja orkupakkann, þar sem Birgir stóð sig mjög vel, mætti vel til leiks og ræddi málin af mikilli skynsemi. Sama má segja um önnur mál.“ Hvorki þingflokkurinn né hann sjálfur hafi barist gegn Birgi. 

Formaðurinn rifjar upp að tekist var á um uppstillingu lista í Suðurkjördæmi, þar sem flokkurinn hafði tvo þingmenn á liðnu kjörtímabili. Þeir hafi ekki átt nein sérstök samtöl um líðan Birgis í flokknum. 

„Maður heyrði sögur um að þetta myndi ekki endast ef Birgir yrði þarna. Ég leit alltaf svo á að við hljótum að trúa því sem fólk segir. Ég hef reyndar lent í því að trúa því sem fólk segir í pólítik sem ekki reyndist rétt en ætlaði að halda áfram að reyna að trúa fólki.“ 

Brýnt sé ná sambandi við Ernu Bjarnadóttur, varaþingmann sem Birgir segir styðja ákvörðun hans um vistaskipti til Sjálfstæðisflokksins.

„Ég get skilið það að hún vilji draga aðeins sig í hlé við þessar aðstæður. Ég hef heyrt af því að menn hafi boðið henni að vera inni sem varaþingmaður eða eitthvað slíkt ef hún kæmi með. Ég ætla nú ennþá að vona að pólítisk afstaða hennar hafi breyst það mikið að hún sé allt í einu orðin sjálfstæðiskona.“ 

Örlög flokksins ekki ráðin

Með brotthvarfi Birgis telur þingflokkur Miðflokksins tvo menn. Sigmundur Davíð segist sjá fyrir sér samheldinn og öflugan, en smáan þingflokk.

„Við verðum ekki í sömu aðstöðu til að þvælast eins fyrir vafasömum áformum ríkisstjórnarinnar og við vorum. Eðli máls samkvæmt.“ 

Bergþór Ólason er sömuleiðis kokhraustur, þrátt fyrir smæð þingflokksins. „Við erum með alduglegustu mönnum, þannig að ég hef engar áhyggjur af því.“

Hann segir pólítíska vinda breytast og kveðst þess fullviss að aukin eftirspurn verði eftir flokknum. Sigmundur Davíð kveðst hlakka til næsta kjörtímabils. „Ég efast ekki um að aukin eftirspurn verði eftir rödd skynsemishyggju í pólítik á Íslandi.“