Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Staðhæfing stenst ekki segir brottrekinn trúnaðarmaður

10.10.2021 - 18:52
Mynd: RÚV - Bragi Valgeirsson / RÚV
Brottrekinn hlaðmaður sem jafnframt var trúnaðarmaður hjá Icelandair furðar sig á fullyrðingu fyrirtækisins um að hún hafi ekki verið trúnaðarmaður þegar henni var sagt upp. Hún hafi verið í stöðugum samskiptum við yfirmenn sem slíkur. Mörg stéttarfélög hafa stutt hana og málið er á leið í félagsdóm. 

Ólöfu Helgu Adolfsdóttur var tilkynnt munnlega þann 20. ágúst að það ætti að segja henni upp. Hún hafði verið kjörin trúnaðarmaður í mars 2018 og alltaf verið endurkjörin. Auk þess var hún öryggistrúnaðarmaður frá febrúar 2020 í öryggisnefnd. 

„Það gengur ekki upp. Ég hef bara verið að sinna þessu starfi óslitið síðan ég var kosin. Og bara síðustu mánuði fyrir uppsögnina var ég bara í stöðugum samskiptum við Icelandair, yfirmennina, þ.a. það á ekki að fara neitt á milli mála,“ segir Ólöf Helga Adolfsdóttir.

Gögn sýna samskipti Icelandair við trúnaðarmann

Í gögnum sem Fréttastofa hefur undir höndum kemur fram af skjáskoti af innra starfsmannavef Icelandair að Ólöf Helga sé bæði trúnaðar- og öryggistrúnaðarmaður. Skjáskotið var tekið eftir að henni var sagt upp. 

Haft hefur verið eftir Icelandair að fyrirtækið fari að kjarasamningum og lögum meðal annars þeim sem kveði á um vernd trúnaðarmanna. Óheimilt er samkvæmt lögum á segja þeim upp.
Lögfræðingur Samtaka atvinnulífsins hefur fyrir hönd Icelandair sagt að Ólöf Helga hafi ekki verið trúnaðarmaður á uppsagnartímanum. Ekki hafi verið send tilkynning um skipun hennar í mars 2020. 

Í áðurnefndum gögnum koma meðal annars fram skilaboð frá þessu ári þar sem hún er talin í hópi trúnaðarmanna af hálfu Icelandair og þar sem hún skrifar yfirmönnum sem trúnaðarmaður án athugasemda. 

Alltaf náð að leysa vandamál

Lítur þú svo á að þér hafi verið sagt upp af því þú hafir verið að rífa kjaft?

„Ja, það er það eina sem mér dettur í hug. Ég bara get ekki fundið neina aðra ástæðu fyrir því.“

Var erfitt í þínu starfi sem trúnaðarmaður að eiga við Icelandair?

„Ég hélt ekki en þú veist það koma alltaf upp vandamál eins og alls staðar og við yfirleitt náum að leysa það.“

Efling undirbýr nú málshöfðun fyrir félagsdómi. Mörg stéttarfélög hafa lýst yfir stuðningi við baráttu Ólafar Helgu; Flugvirkjafélagið, Flugfreyjufélagið, Félag íslenskra atvinnuflugmanna og Rafiðnaðarsambandið. 

“Í erfiðri stöðu er ég bara mjög þakklát fyrir þetta.“

Á vef Eflingar er að finna samstöðuyfirlýsingar frá vinnufélögum Ólafar Helgu og frá öðrum stéttarfélögum. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Bragi Valgeirsson - RÚV
Hlaðmenn á Reykjavíkurflugvelli.
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV