Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Nýklaktir ungar ganga og synda 17 km leið á 3 dögum

Mynd: Brynjúlfur Brynjólfsson / RÚV
Æsileg ævintýraferð helsingjapabba og nýklaktra unga hans úr litlu eyjunni Skúmey í Jökulsárlóni hefur verið kortlögð með gps- og farsímagögnum. Helsingjapabbinn Sæmundur stakk sér til sunds í ískalt lónið og gekk svo með nýklakta unga sína, samtals um sautján kílómetra leið. 

Fréttastofa heilsaði upp á hóp helsingja í eynni Skúmey í Jökulsárlóni í vor. Fjórir þeirra voru merktir með sérstökum gps- og símsendi. Það eru þær Eivör, Stefanía, Guðrún og Sæmundur.

Sjá: Helsingi nemur land í Skúmey

En hvernig skyldi helsingjunum fjórum hafa reitt af í sumar?

„Það var aðeins misjafnlega. Við erum örugg um það að Sæmundur kom ungum í land. En hinar þrjár, kvenfuglar: Stefanía og Eivör ég tel að það sé ekki ólíklegt að þær hafi komið ungum í land en misst þá fljótlega. En Guðrúnu, sé ég ekki merki um að hún hafi ungað út eggjum,“ segir Arnór Þórir Sigfússon, dýravistfræðingur hjá Verkís.

Sæmundur lagði af stað með fjölskyldu sína úr Skúmey 5. júní í rigningu og með vindinn í fiðrað fangið. 

„Þau synda virðist vera bara með ungana bara beint yfir lónið. Þetta er ferð sem tekur þau svona cirka tvo klukkutíma með þessa litlu hnoðra,“ segir Arnór.

Bara nýklaktir úr eggjum?

Já, já, bara pínulitlir dúnungar. Það er eiginlega ekkert að hafa að éta í eynni þannig að þeir verða að koma sér strax í land,“ segir Arnór.

Svo er haldið af stað. Og þau fara þetta fótgangandi?

„Já, allt fótgangandi. Þetta eru ekki stór skref sem þeir taka litlir gæsaungar. Þetta eru mörg gæsaskref sem liggja að baki,“ segir Arnór.

Ungarnir fara alla leið í Suðursveit sem er um sautján kílómetrum frá Skúmey. Þangað eru þeir komnir þremur dögum eftir að þeir lögðu af stað. 

„Og það eru margar hættur á leiðinni. Það eru skúmar þarna. Þeir eru öflugir ránfuglar og eins eru refir þarna á ferð,“ segir Arnór.

Sæmundur felldi fjaðrir þegar hann kom í Suðursveitina og var því ófleygur þegar ógæfan dundi yfir. 

„Þarna í byrjun ágúst virðist hann hafa verið drepinn og mig grunar að refur hafi drepið hann. Við vitum náttúrulega ekki hvað varð um ungana og fjölskylduna. Það getur vel verið að ungarnir og móðirin hafi sloppið og Sæmundur hafi fórnað sér,“ segir Arnór.

Sendirinn hans Sæmundar fannst. Eru tannaför eftir rebba?

„Nei, ég var nú ekki búinn að sjá það. Það virðist nú vera að hann hafi látið vera að naga sendinn,“ segir Arnór.

En þrátt fyrir ótímabær endalok Sæmundar virðist afkoma unga í sumar hafa verið ágæt.

„Það virðist svona þar sem af er með helsingjann í ár vera þokkalega gott. Ég held að það sé þó nokkuð yfir meðallagi,“ segir Arnór.