Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Minningarskjöldur um Kamban fjarlægður

10.10.2021 - 20:54
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Minningarskjöldur um Guðmund Kamban rithöfund og leikstjóra hefur verið fjarlægður af vegg hússins við Uppsalagötu 20 í Kaupmannahöfn, þar sem hann forðum bjó. Kamban féll fyrir byssukúlu andspyrnumanns á friðardaginn 5. maí 1945 en hann var sagður aðhyllast hugmyndafræði Nasista.

Frá þessu er greint á vefnum ØsterbroLiv. Engar heimildir eru til um að Kamban hafi svikið andspyrnumenn í hendur hernámsliðsins en þekkt er að hann hlaut frá því fjárstyrk.

Platan, sem lætur lítið yfir sér, var sett upp árið 1990 að undirlagi leikarahjónanna Helgu Bachmann og Helga Skúlasonar en hún var systurdóttir Guðmundar. Hann var fæddur í Reykjavík 8. júní 1888, var Jónsson en tók upp Kamban-nafnið árið 1908.

Tveimur árum síðar hélt hann til Kaupmannahafnar til náms, hann bjó einnig um tíma í Lundúnum, Berlín og New York. Meðal helstu verka hans eru leikritin Hadda Padda og Vér morðingjar.

Í sumar upphófust háværar raddir fólks sem hyllir minningu dansks andspyrnufólks þess efnis að skjöldurinn skyldi fjarlægður vegna meintrar fylgispektar Kambans við hernámsliðið þýska.

Einnig var því borið við að óeðlilegt væri að skjöldurinn héngi áfram uppi í ljósi þess hve erfitt væri að fá stjórnvöld til að reisa andspyrnufólki minnismerki. Jafnframt var því hótað að skjöldurinn yrði fjarlægður með góðu eða illu.

Formaður húsfélagsins í Uppsalagötu kveður íbúa hússins, en enginn þeirra hefur búið lengur en þrjú ár í húsinu, ekki hafa viljað blandast í þau mál og því hafi verið ákveðið að taka skjöldinn niður.     

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV