Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

„Ekki gott að heyja baráttu undir fölsku flaggi“

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins telur að of seint hafi verið að reyna að telja Birgi Þórarinsson af ákvörðun sinni að yfirgefa Miðflokkinn og ganga til liðs við Sjálfstæðisflokkinn, þegar hann frétti af því.

Þetta kom í viðtali við Sigmund Davíð á Sprengisandi á útvarpsstöðinni Bylgjunni í morgun. Mat Sigmundar er að þá þegar hafi viðtal Birgis við Morgunblaðið hafa verið ákveðið og undirbúið. 

Sigmundur segir Birgi hafa sagt sér frá ákvörðun sinni eftir viðtal á Útvarpi Sögu. Í samtali þeirra hafi hann beðið Birgi að tryggja að þeir hefðu ekki rétt fyrir sér sem teldu hann ekki standa með Miðflokknum.

Sigmundur segir af og frá að Birgi hafi verið ýtt til hliðar innan flokksins, hann hafi sinnt embættum og staðið sig vel, til að mynda í málflutningi flokksins gegn orkupakka þrjú.

Þingflokkur Miðflokksins á síðasta kjörtímabili hafi verið samhentur og skemmtilegur hópur, og engar áhyggjur uppi um að Birgir væri eitthvað sér á parti, eins og Sigmundur orðaði það.

„Við erum með kerfi sem byggir á flokkum. Menn þurfa að geta treyst því að frambjóðendur séu ekki að sigla undir fölsku flaggi, þeir séu raunverulega hluti af þeim flokki sem viðkomandi kjósandi veitir atkvæði sitt.“

Sigmundur segir fjölmörg dæmi um að fólk fari milli flokka, það gerist í framhaldi af pólítískum ágreiningi innan stjórnmálaflokka. Það eigi ekki við núna, þegar ekki hafi verið búið að halda þingflokksfund, þingmenn ekki komnir með kjörbréf eða Alþingi sett.

„Það er ekki gott gagnvart kjósendum að fara í kosningabaráttu undir fölsku flaggi. Lýðræðið virkar ekki nema stjórnmálamenn ætli sér að standa við það sem þeir lofa né þegar kjósendur fá allt annað en þeir kjósa.“ 

Sigmundur segir jafnframt að Birgir hafi verið mjög gagnrýninn í garð Sjálfstæðisflokksins, jafnvel svo að honum sjálfum þótti nóg um.

„Nú er greinilega breytt viðhorf til Sjálfstæðisflokksins, sem hlýtur að þýða það að Sjálfstæðisflokkurinn ætli að laga sig að Birgi Þórarinssyni.“  Hann telur alveg ljóst að einhver samtöl hafi staðið yfir um tíma milli Sjálfstæðisflokkins og Birgis.

Hann segir tvo menn geta myndað þingflokk strax að loknum kosningum, öfugt við það sem hann segir Sjálfstæðismenn hafa talið, og það hafi Miðflokkurinn gert umsvifalaust.

„Vonandi verða þessar kosningar endurteknar og þá getur Birgir reynt fyrir sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.“ 

Sigmundur segir að sér þætti sérstakt að Erna Bjarnadóttir, varaþingmanns flokksins í Suður, gengi til liðs við Sjálfstæðisflokkinn, miðað við pólítíska afstöðu hennar til flokksin.

Það væri mjög leitt gagnvart Heiðbjörtu Ólafsdóttur að mati SIgmundar en hún gaf eftir annað sæti á lista flokksins í Suðurkjördæmi. Sigmundur segir að það væri hræðileg framkoma gagnvart henni og það eig við framkomu Birgis í þessu máli.