Úrskurðurinn í Póllandi brot gegn Evrópurétti

09.10.2021 - 18:59
Mynd: Hjalti Haraldsson / RÚV
Úrskurður dómstóls í Póllandi um að stjórnarskráin gangi framar lögum Evrópusambandsins er brot gegn Evrópurétti, segir prófessor í lögfræði. Sambandið gæti reynt að svipta Pólland atkvæðisrétti í leiðtogaráðinu.

Það hefur verið lengi verið stirt á milli pólskra stjórnvalda og Evrópusambandsins. Deilan magnaðist enn á fimmtudag þegar stjórnskipunardómstóll Póllands úrskurðaði að pólska stjórnarskráin gengi framar lögum og reglum Evrópusambandsins. „Og það eitt og sér felur auðvitað í sér brot gegn Evrópuréttinum,“ segir Margrét Einarsdóttir prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík og sérfræðingur í Evrópurétti. 

Gengið mun lengra en áður

Margrét segir að önnur ríki, til dæmis Þýskaland og Danmörk, hafi slegið ákveðna varnagla um skilyrðislausan forgang Evrópuréttar en í þessu máli sé gengið mun lengra. „Það sem er kannski undirliggjandi vandamálið er að Evrópusambandið telur, og Evrópudómstóllinn hefur í rauninni staðfest, er að breytingar pólskra yfirvalda á dómstólakerfinu fela í sér brot á 2. gr. sáttmála um Evrópusambandið sem gerir kröfu á um að aðildarríki virði meðal annars réttarríkið og mannréttindi. Og þessi dómur pólska stjórnskipunardómstólsins er í rauninni viðbrögð við þeim dómi Evrópudómstólsins.“

epa09509101 President of the European Commission, Ursula von der Leyen, attends a press conference during an EU-Western Balkans summit in Brdo pri Kranju, in Kranj, Slovenia, 06 October 2021. The summit, part of the EU's strategic engagement with the Western Balkans, is hosted by the Slovenian presidency of the Council and brings together leaders from EU member states and the six Western Balkans partners (Albania, Bosnia and Herzegovina, Serbia, Montenegro, North Macedonia and Kosovo).  EPA-EFE/IGOR KUPLJENIK
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdarstjórnar ESB, er ekki skemmt yfir dómnum í Póllandi.

Leiðtogar ESB hafa sagt skýrt og greinilega að þau ætli að bregðast við þessum nýjustu vendingum. En til hvaða aðgerða getur sambandið gripið? „Í fyrsta lagi, það sem þau munu örugglega gera strax er að framkvæmdastjórnin höfði nýtt, og aftur, samningsbrotamál gegn pólskum yfirvöldum og það mun væntanlega enda með dómi Evrópudómstólsins sem mun leggja dagsektir á Pólland,“ segir Margrét. 

Einnig geti ESB hafið ferli sem endi með því að Pólland verði svipt atkvæðisrétti í leiðtogaráðinu. Leiðtogaráðið mótar stefnu ESB og er ein æðsta stofnun sambandsins. Til þess þarf hins vegar einróma samþykki allra leiðtoga aðildarríkja og afar ólíklegt að til dæmis Ungverjar fallist á það.  „Í þriðja lag þá getur Evrópusambandið haldið áfram að beita þessum pólitíska og fjárhagslega þrýstingi sem að þeir hafa verið að beita. Til dæmis þá hafa þeir ekki enn þá greitt Póllandi úr COVID sjóðnum sínum. Þannig að það eru úrræði sem þeir munu örugglega koma til með að halda áfram að beita,“ segir Margrét.