Þjófur fyllti bíl flugfreyju af stolnu góssi frá KSÍ

09.10.2021 - 21:03
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd - RÚV
Heldur sérkennileg sjón blasti við flugfreyju Icelandair þegar hún var að koma úr Ameríkuflugi frá Seattle í morgun. Bíllinn hennar var fullur af drasli sem hún kannaðist ekki við. En þar sem hún var þreytt eftir langa flugferð ákvað hún velta þessu ekki meira fyrir sér heldur keyra bara heim og skella skuldinni á eiginmann sinn.

Flugfreyjan vill ekki láta nafn síns getið en fréttastofa komst á snoðir um málið eftir að hafa fengið senda færslu sem hún setti inn á Facebook-hóp flugfreyja. 

Slíkt var draslið í bílnum að flugfreyjan neyddist til að keyra heim  í 2. gír með skottið opið og flugfreyjutöskuna í fanginu.  

Þegar hún kom heim og eiginmaðurinn fór að skoða dótið, sem hafði verið troðið inn í bílinn, kom auðvitað í ljós að hann bar ekki ábyrgð á þessu drasli.   Þarna voru til að mynda töskur sem voru kyrfilega merktar Knattspyrnusambandi Íslands.

Og eftir að hafa birti myndir af dótinu var það eiginkona Þorgríms Þráinssonar, liðsstjóra landsliðsins, sem leysti gátuna en hún sömuleiðis flugfreyja. Þarna voru munir á ferðinni sem einhver hafði stolið frá sjúkraþjálfurum KSÍ.

Ómar Smárason, upplýsingafulltrúi KSÍ, staðfestir í samtali við fréttastofu að sjúkraþjálfaradóti frá landsliðinu hafi verið stolið og að munirnir hafi verið endurheimtir.  

Í bílnum voru líka tveir gaskútar og einn fatboy-stóll, svo fátt eitt sé nefnt og því greinilega að þjófurinn hefur látið greipar sópa og ætlað að nota bíl flugfreyjunnar til að koma þýfinu undan.

Flugfreyjan segir í samtali við fréttastofu að hún hafi sér það til málsbóta að hafa verið ákaflega þreytt eftir flugferðina frá Bandaríkjunum; henni hafi einfaldlega ekki dottið það til hugar að þjófur færi að fylla bílinn hennar af stolnu góssi. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV