Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Margir prófessorar sem hafa skrifað mjög vondar bækur

Mynd: Kiljan / RÚV

Margir prófessorar sem hafa skrifað mjög vondar bækur

09.10.2021 - 08:00

Höfundar

Guðni Elísson, prófessor í bókmenntafræði, gaf út fyrir skemmstu 800 blaðsíðna stórvirki. Skáldsögu sem í fyrstu virðist óreiðukennd en er í raun vandlega úthugsuð á alla kanta. Hann gefur lítið fyrir að prófessorar ættu að veigra sér við að skrifa skáldskap.

Bókin heitir Ljósgildran og er fyrsta skáldsaga Guðna Elíssonar, sem kennt hefur bókmenntafræði við Háskóla Íslands um langt skeið. Þetta er breið samtímalýsing sem gerist á Íslandi og í henni er allt lagt undir, bókmenntirnar, skáldskapurinn, pólitíkin og viðskiptalífið.

Í grundvallaratriðum fjallar bókin um tvö mjög ólík skáld. „Frumforsenda sögunnar er sú hugmynd að tveir valdamestu menn landsins ákveða, hvor í sínu lagi, að koma sér upp hirðskáldi, í veruleika þar sem öllum er þannig séð sama um skáldskap,“ segir Guðni í viðtali í Kiljunni á RÚV. „En um leið og menn fara að metast um eitthvað þá verður það hitamál. Sagan gengur út á það að hleypa saman bæði peninga- og stjórnmálalífinu og menningarlífinu og láta það speglast líka.“

Raunsæisleg smjörklípusaga

„Á yfirborðinu getum við sagt að sagan einkennist af óreiðu og flæði,“ segir Guðni. „Það er eins og hlutir séu að brjótast út fyrir mörkin. En þetta er gríðarlega strúktúreruð bók. Ef þú skoðar hana, hún er 800 síður, tuttugu og fimm 32 síðna arkir. Ef þú skerð hana nákvæmlega niður á síðu 400 sérðu tvær aðalkarlsöguhetjurnar koma saman. Það fór í rauninni mesta vinnan hjá mér í að strúktúrera bókina.“

Ýmsar persónur héðan og þaðan úr bókmenntunum, þar á meðal þekkt persóna úr barnabókum, heimsækja söguna, trufla frásögnina eða drífa hana áfram. „Þar kemur karnivalið inn í og skálkasagan,“ segir Guðni. „Þær geta verið tæki til að framandgera eitthvað sem stendur okkur mjög nærri, þær eru fyrir mér tæki eða leið til þess að varpa ljósi á eitthvað í okkar samtíma sem við komum ekki auga á því það stendur okkur svo nærri. Þrátt fyrir öll þessi fantastísku element þá skilgreini ég Ljósgildruna sem raunsæisverk.“

Hann segir bókina bjóða upp á endurtekinn lestur. „Þegar þú lest hana í annað skipti lestu allt aðra bók. Þetta er smjörklípusaga. Söguvitundin er alltaf að benda lesandanum á ákveðna hluti á meðan einhverju öðru er rennt í gegn.“

Of margir íslenskir höfundar lesa ekki nóg

Spurður að því hvort það sé ekki vogað fyrir prófessor í bókmenntum að hætta sér á svið skáldskaparins með svona bók, svarar hann léttur á brún að margir prófessorar hafi skrifað mjög vondar bækur.

„Þannig að það er alveg eins hægt að miða við þann mælikvarða. Ég held að það sé alltaf kostur að þegar maður ætlar sér að skrifa bækur að hafa lesið bækur. Ef ég ætti að krítísera einhverja íslenska höfunda fyrir eitthvað þá myndi ég segja að of margir íslenskir höfundar lesi ekki nóg. Því bækur spretta af bókum og maður þarf að liggja í bókum og hvíla í bókum til þess að skrifa bækur. Textar verða aldrei til einhvers konar einrúmi, þeir verða alltaf til í flókinni samræðu við aðra texta.“

Gerði ekki ráð fyrir að geta gefið bókina út hjá stóru forlagi

Bókin kemur út hjá Lesstofunni, litlu sjálfstæðu forlagi. „Ég held að það sé býsna erfitt að fara með svona stóra bók inn á vel establiserað forlag. Ég reyndi ekki einu sinni að tala við Forlagið um bókina. Því ég gerði ekki ráð fyrir því að það yrði gerlegt að koma henni í gegn þar. Fólkið í Lesstofunni var mjög spennt fyrir henni.“

Guðni gerir raunar stólpagrín að bókaútgefendum, bókmenntaverðlaunum, bókmenntafræðingum og rithöfundum í Ljósgildrunni. Í henni eru veitt tvenn bókmenntaverðlaun, jafnvel þrenn. Sjálfur efast hann um að fá íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir bókina. Og þó. Í henni er heil ljóðabók, sem honum reiknast til að yrði um 50 síður í hefðbundnu ljóðabókabroti. „Kannski fæ ég bara tilnefningu fyrir ljóðabókina?“

Hann er næstum búinn með aðra bók, sem er mun knappari. „Hún er álíka löng og 14. kaflinn í þessari bók.“