
Klaustursmálið ýtti Birgi úr Miðflokknum
Í Morgunblaðinu segir Birgir að vistaskiptin megi rekja allt aftur til uppákomunnar á Klaustur bar árið 2018. Sjálfur fordæmdi hann framferði samflokksmanna sinna þar, og segist hann hafa vonað að um heilt hafi gróið síðan. Annað hafi komið á daginn. Eftir mikla umhugsun hafi hann ákveðið að hann ætti ekki lengur samleið með hinum þingmönnum Miðflokksins.
Birgir ráðfærði sig við trúnaðarmenn Miðflokksins í Suðurkjördæmi, þar á meðal Ernu Bjarnadóttur sem var í öðru sæti lista Miðflokksins í Suðurkjördæmi. Hún verður áfram varamaður Birgis á Alþingi.
Í aðsendri grein í Morgunblaðinu segir Birgir að eftir gagnrýni hans á Klaustursmálið hafi hann aldrei notið fulls trausts innan þingflokksins. Um tíma hafi verið litið á hann sem vandamálið. Það hafi átt sér margar birtingarmyndir sem hann vilji ekki rekja í löngu máli.
Hann segist hafa talið að þessu væri lokið þegar undirbúningur hófst fyrir kosningarnar í haust. Fljótt hafi komið í ljós að svo var ekki, heldur hafi skipulögð aðför gegn honum farið fram af hálfu áhrifafólks innan flokksins til þess að halda honum frá efsta sætinu.