Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Harma stöðu Miðflokksins í Suðurkjördæmi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Þór Ægisson - RÚV
Miðflokksfélag Suðurkjördæmis harmar þá stöðu sem flokkurinn er kominn í í kjördæminu eftir að Birgir Þórarinsson sagði sig úr flokknum og gekk í Sjálfstæðisflokkinn. Stjórnin er þó einhuga um að horfa til framtíðar í stað þess að dvelja við það sem liðið er. Þetta kemur fram í ályktun Miðflokksfélags Suðurkjördæmis.

Í ályktuninni segir einnig að flokkurinn búi yfir dýrmætum mannauði sem hafi verið og sé tilbúinn að leggja mikið á sig til að vinna að framgangi stefnu og málefna flokksins. 

Kjördæmisfélagið tekur ekki jafn djúpt í árinni og Fjóla Hrund Björnsdóttir, framkvæmdastjóri þingflokks Miðflokksins. Hún sagði fyrr í dag að Birgir væri að svíkja kjósendur flokksins og brotthvarf hans úr flokknum sé áfall bæði fyrir kjósendur og þá sem unnu fyrir hann og studdu í kosningabaráttunni.

Sjálfur segir Birgir málið teygja sig aftur um þrjú ár, til Klaustursmálsins. Hann gagnrýndi þá samflokksmenn sína fyrir framferði þeirra á barnum, en hann hafi haldið að það hefði gróið um heilt síðan. Í kosningabaráttunni nú hafi hann svo komist að því að svo var ekki, heldur hafi áhrifafólk innan flokksins unnið skipulega gegn honum að hans sögn.

Birgir segist ekki vera að svíkja kjósendur, og hann ætli að vinna áfram að þeim málefnum sem hann hafi lofað að standa fyrir. Fjóla Hrund segir hins vegar marga kjósendur í Suðurkjördæmi hafa sett sig í samband við þingflokkinn og lýst óánægju sinni yfir að atkvæði sem þeir töldu sig ahfa greitt Miðflokknum væru nú atkvæði greidd Sjálfstæðisflokki.

Vilhjálmur Árnason, varaformaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, sagði það hafa verið samþykkt samhljóða á þingflokksfundi í gær að taka á móti Birgi. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, bauð Birgi velkominn í færslu á Facebook.

Þó þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hafi samþykkt einróma að taka á móti Birgi eru ekki allir í grasrót flokksins sáttir. Veronika Steinunn Magnúsdóttir, formaður Heimdallar, félags ungra Sjálfstæðismanna í Reykjavík, skrifaði á Twitter að vistaskipti Birgis geri verulega lítið úr prófkjarabaráttu Sjálfstæðisflokksins og vilja kjósenda.