„Ég er vanur að koma mér í klandur á þessum tíma“

Mynd: RÚV / RÚV

„Ég er vanur að koma mér í klandur á þessum tíma“

09.10.2021 - 14:30

Höfundar

Jarðarfararsálmar og vessavísur eru á meðal þess sem finna má í fyrstu ljóðabók Braga Valdimars Skúlasonar sem er væntanleg í haust. Hann er spenntur en stressaður fyrir því að demba sér í jólabókaflóðið og það er margt fleira fram undan hjá Braga yfir aðventuna. Fjórtán Baggalútstónleikar hafa þegar verið settir á dagskrá.

Bragi Valdimar Skúlason tónlistarmaður og textasmiður með meiru sendir frá sér sína fyrstu ljóðabók á haustdögum. Sú heitir Jóðl og geymir bæði gamla texta og nýja. „Sumt er mjög gamalt sem ég er alveg að svitna yfir og annað nýrra,“ segir Bragi í samtali við Morgunútvarpið á Rás 2. Hann hefur sem fyrr segir ekki sent frá sér bók áður en ógrynni lagatexta. „Ég hef verið meira í lagatextum og einhverjum Facebook statusum, einhverju styttra máli. Ég hef verið frekar knappur í því.“

Var mjög spéhræddur fyrst og kann ekki að jóðla

Tilhlökkunin yfir útgáfunni er stressblönduð. „Ég var mjög spéhræddur fyrst en Páll Valsson hjá Bjarti sannfærði mig um að þetta væri góð hugmynd, og ég er ekki frá því núna að þetta sé nokkuð gott.“ Nafnið á bókinni er orðaleikur, en ekki vísbending um hæfileika Braga á sviði jóðls. „Ég kann ekki að jóðla en ætti kannski að skella mér á námskeið fyrir upplestrana sem bíða mín.“

Vanur að koma sér í klandur á þessum tíma

En aðventan mun ekki bara einkennast af upplestri og kynningu ljóðabókarinnar því eins og venjulega mun Bragi koma fram ásamt hljómsveit sinni Baggalút á fjölmörgum jólatónleikum, fjórtán slíkir hafa þegar verið settir á dagskrá. Það er því mikið fram undan og það verður ekki auðvelt að finna nógu margar mínútur í hverjum sólarhring. „Ég er bara skelfingu lostinn en ég er vanur að koma mér í mikið klandur á þessum tíma þannig að ég finn mér tímavél og reyni að láta þetta ganga upp.“

Jarðarfararsálmar og vessavísur

Textaskrif hafa fylgt Braga frá menntaskólaaldri. „Í hljómsveitastússinu var ég settur í textaskrifin og mér hefur alltaf fundist gaman að leika mér að orðum. Lagatextar eru gott form til að flippa, ekki allt of alvarlegt og það er hægt að leyfa sér ýmislegt,“ segir Bragi. Og það er mikil breidd í umfjöllunarefni bókarinnar. „Þegar maður skoðar þessa bók er hún blanda af jarðarfararsálmum og svo eru vessavísur á næstu blaðsíðu.“

Engin stemning í fyrra en nú er fólk tilbúið

Bragi rekur auglýsingastofuna Brandenburg og þar ver hann flestum dögum. Á kvöldin sinnir hann annarri vinnu sem nóg er af. Hann situr líka í stjórn nýrra samtaka sem heitar Samtök skapandi greina. Í nýlegri úttekt Bandalags háskólamanna kemur fram að mikill samdráttur hafi orðið í heildargreiðslum og fjölda starfandi fólks í skapandi greinum hér á landi frá 2008. „Síðan eftir hrun hefur störfum fækkað um fjórðung í menningargreinum og launin farið niður um næstum helming eða 40% heilt yfir,“ segir Bragi. „Það vantar pening, aðstöðu og innviði. Það gætu verið miklu fleiri listamenn og þetta gæti verið risaiðnaður. Það að hljómsveit slái í gegn á erlendri grundu er ekkert annað en hugverknaður.“

Í heimsfaraldri varð fólk örvæntingarfullt í listageiranum, sérstaklega þeir sem hafa það að atvinnu að standa á sviði þar sem samkomutakmarkanir komu í veg fyrir að hægt væri að sinna þeirri vinnu. „Allt í einu er ekki í boði að gera það sem þú gerir yfirleitt. Við settum í sölu jólatónleika á síðasta ári en það var slegið út fljótlega og engin stemning. En núna er fólk mjög tilbúið,“ segir hann spenntur enda rokseljast miðarnir.

Þarf ekki að vera best í íslensku til að vera með

Bragi er líka annar tveggja þáttastjórnenda Kappsmáls sem sýndur er á RÚV á föstudagskvöldum. Þátturinn hefur vakið mikla lukku og er í stöðugri þróun. „Við höfum verið að prófa nýja leiki og finna tempóið sem er best í þessu, en mér finnst gaman að sjá hvernig ólíkt fólk bregst við þessum aðstæðum. Mín skoðun er að allir geti verið með,“ segir Bragi og bætir við að góð íslenskukunnátta sé ekki nauðsyn. „Þeir sem eiga að vera bestir í íslensku eru það ekkert. Þegar maður fattar að tungumálið er okkar allra og við eigum að leika okkur með það, og við erum að nota þetta á hverjum degi.“

Rætt var við Braga Valdimar Skúlason í Morgunútvarpinu á Rás 2.

Tengdar fréttir

Tónlist

Nú mega jólin koma fyrir mér

Tónlist

Leppalúði