Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Austurríska undrið fellur af stalli sínum

09.10.2021 - 21:30
epa07606009 Austrian Chancellor Sebastian Kurz is leaving his seat on the cabinet bench after losing a no-confidence vote during a special session of the parliament at the temporary parliament building at the Hofburg Palace in Vienna, Austria, 27 May 2019. Kurz faced a no-confidence vote in parliament after his government's coalition partner, the far-right Freedom Party (FPOe) had come under fire over a secretly filmed video which appeared to show FPOe leader and Vice-Chancellor Heinz-Christian Strache promising public contracts in return for election campaign donations from a fake Russian backer.  EPA-EFE/CHRISTIAN BRUNA
Sebastian Kurz stígur úr stóli kanslara í síðasta sinn eftir að vantraust var samþykkt á hann. Mynd: EPA-EFE - EPA
Hann er stundum kallaður „undrabarnið“, jafnvel Messías af stuðningsmönnum. En nú er enn og aftur komið að krossgötum hjá Sebeastian Kurz, kanslara Austurríkis sem tilkynnti um afsögn sína í kvöld vegna ásakana um spillingu. Sjálfur segir hann þær ekki eiga við rök að styðjast og heitir því að hreinsa nafn sitt.

Kurz ásamt níu öðrum er sakaður um að hafa notað opinbert fé til greiða fyrir jákvæða umfjöllun í fjölmiðlum á árunum 2016 til 2019. 

Það er hann sagður hafa gert með því að borga fyrir skoðanakannanir sem voru honum hliðhollar. Þær voru síðan birtar í dagblaði í skiptum fyrir auglýsingasamninga við ríkisstofnanir.

Þótt ferill Kurz í stjórnmálum sé ekki langur hefur hann verið býsna stormasamur og skrautlegur.  Hann hætti laganámi til að einbeita sér að ferli sínum í stjórnmálum og 27 ára var hann orðinn utanríkisráðherra landsins.

Hann leiddi Lýðflokkinn til sigur í kosningunum 2017 og myndaði eftir þær ríkisstjórn með hinum umdeilda Frelsisflokk.

Hörð stefna í innflytjendamálum var aðalsmerki þeirrar stjórnar þar sem framganga Victors Orbans í þeim efnum í Ungverjalandi var höfð til hliðsjónar. 

Stjórnarsamstarfið var ekki langlíft. Myndskeið skaut upp kollinum sem sýndi varakanslara Austurríkis og leiðtoga Frelsisflokksins bjóða verðmæta verktakasamninga við ríkið í skiptum fyrir jákvæða fjölmiðlaumfjöllun. varakanslarinn hafði á orði að hann vildi samskonar fjölmiðlalandslag í Austurríki og Orban hafði komið á í Ungverjalandi. 

Austurríkið þingið samþykkti í framhaldinu tillögu um vantraust á Kurz og boðað var til kosninga.

Kurz hefur verið legið á hálsi fyrir að vera of upptekinn af eigin ágæti. Gagnrýnendur tættu til að mynda í sig sjálfsævisögu hans þar sem því var lýst í nokkrum smáatriðum þegar hann sagði sín fyrstu orð, 12 mánaða gamall.  

En Austurríkismenn hafa mikið dálæti á þessum vatnsgreidda og sjálfsörugga Vínarbúa sem er sonur ritara og kennara. Lýðflokkurinn undir forystu Kurz vann sigur í kosningunum fyrir tveimur árum, mynduð var ríkisstjórn með Græningjum og Kurz settist í kanslarasætið á ný.

Græningjar stóðu við bakið á kanslaranum þegar saksóknara tilkynntu fyrr á þessu ári að þeir hygðust rannsaka hvort hann hefði logið fyrir þingnefnd. Nýlegar ásakanir um spillingu virðast aftur á móti hafa verið kornið sem fyllti mælinn. „Hann er ekki lengur hæfur til að vera kanslari,“ sagði Werner Kogler, leiðtogi Græningja og varakanslari, á föstudag.  

Kurz er hins vegar hvergi af baki dottinn þótt hann sé búinn að segja af sér kanslaraembættinu. Hann ætlar sér áfram að vera formaður Lýðflokksins og vera í forsvari fyrir þingflokkinn. Í umfjöllun BBC kemur fram að þótt sumir telji afsögnina eingöngu til málamynda þar sem Kurz stýri öllu á bakvið tjöldin eru aðrir þeirrar skoðunar að tími hans í stjórnmálum sé einfaldlega liðinn.