Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Áfall fyrir kjósendur og þá sem unnu fyrir Birgi

09.10.2021 - 19:15
Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Haraldsson - RÚV
Framkvæmdastjóri þingflokks Miðflokksins segir að Birgir Þórarinsson sé að svíkja kjósendur flokksins í Suðurkjördæmi. Brotthvarf hans úr flokknum sé áfall fyrir kjósendur, en líka fyrir þá sem unnu fyrir hann og studdu hann í kosningabaráttunni.

Birgir tilkynnti í morgun að hann hafi sagt skilið við Miðflokkinn og gengið til liðs við þingflokk Sjálfstæðisflokksins. Þetta var samþykkt á þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins í gær.

Birgir segir að málið teygi sig aftur til Klaustursmálsins 2018, en hann gagnrýndi samflokksmenn sína fyrir framferði þeirra á barnum. Þegar dró nær kosningum í haust hafi áhrifafólk innan Miðflokksins unnið skipulega gegn sér. „Þá er bara ráðist í skipulagða aðför gegn mér,“ segir Birgir í samtali við fréttastofu. 

Fjóla Hrund Björnsdóttir, framkvæmdastjóri þingflokks Miðflokksins, segist ekki kannast við þetta. „Nei, alls ekki. Hann fékk þarna gríðarlega góðan stuðning við að leiða listann fyrir kosningar þannig að þetta kemur öllum mikið að óvörum,“ segir Fjóla Hrund. „Þetta er auðvitað gríðarlegt áfall, ekki bara fyrir kjósendur heldur líka fyrir þá sem unnu fyrir hann í kosningabaráttunni, studdu hann í kosningabaráttunni.“ 

„Fólk er að setja atkvæði við Miðflokkinn“

Birgir segist ekki telja að hann sé að svíkja kjósendur flokksins, og segir að hann muni vinna að þeim málefnum sem hann hafi lofað í kosningabaráttunni að standa fyrir. Fjóla Hrund segir aftur á móti að þetta séu svik við kjósendur. Margir kjósendur í Suðurkjördæmi hafi sett sig í samband við þingflokkinn og lýst yfir óánægju með að atkvæði sem þeir töldu sig vera að greiða Miðflokknum fari nú til Sjálfstæðisflokksins. „Fólk er að setja þarna atkvæði við Miðflokkinn og málefni Miðflokksins,“ segir hún. 

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, gaf ekki kost á viðtali en býður Birgi velkominn í hópinn á Facebook. Beiðni Birgis um að fá að ganga til liðs við Sjálfstæðisflokkinn var tekin fyrir á þingflokksfundi í gær.

En voru skiptar skoðanir meðal Sjálfstæðismanna um að taka hann innan þeirra raða? „U, nei. Það voru umræður, en það var samþykkt, samhljóða,“ segir Vilhjálmur Árnason, varaformaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins.

Tveir eftir í þingflokknum

Nú hefur Miðflokkurinn einungis tvo menn á þingi, Bergþór Ólason og formanninn Sigmund Davíð Gunnlaugsson, en Sjálfstæðisflokkurinn er með sautján þingsæti. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur hvorki náðst í Sigmund Davíð né Bergþór í dag. 

Stjórn Miðflokksins sendi frá sér yfirlýsingu síðdegis og segist harma ákvörðun Birgis að yfirgefa þingflokkinn strax að loknum kosningum og áður en þing hefur verið sett, en breytt skipan þingflokksins dragi ekki úr getu hans til að fylgja eftir grunngildum og hugsjónum flokksins.