Tjúttað og tvistað á fyrsta kráarkvöldinu í tvö ár

08.10.2021 - 14:03
Mynd með færslu
 Mynd: Ásta Júlía - RÚV
Hlátrasköllin ómuðu um alla ganga hjúkrunarheimilisins Hlíðar á Akureyri í gærkvöld þegar fyrsta kráarkvöldið var haldið eftir faraldurinn. Göróttar veigar flæddu um húsið á meðan heimilisfólkið söng og dansaði.

Bros á hverju andliti

Íbúar og starfsfólk á Hlíð skemmtu sér konunglega og stigu léttan dans þegar hljómsveitin Hlíðin mín fríða steig á stokk við gleði íbúanna.  Ásta Júlía Aðalsteinsdóttir, viðburðastjóri á Hlíð segir brosin hafa skinið á hverju andliti. „Stemningin var náttúrlega bara frábær. Þetta er í fyrsta skiptið sem við vorum með krárkvöld síðan í febrúar 2020. Þannig að það var mikil gleði og mikið dansað,“ segir Ásta. 

„Það skemmtu sér allir ofboðslega vel“

Ásta segir eftirvæntinguna hafa verið mikla. „Það náttúrlega hefur ekki verið samvera fyrir íbúana niðri í salnum hjá okkur eða kaffihúsinu þannig að fólk var alveg farið að spyrja og langa til að komast á kráarkvöld og aðrar skemmtanir.“

Það hefur enginn hreinlega prjónað yfir sig þarna í gær?

„Nei nei alls ekki, það skemmtu sér allir ofboðslega vel.“