„Þetta kom bara eins og virkilegur rassskellur“

Frank Vígberg Snær Lúðvígsson kaffihússgestur.
Frank Vígberg Snær Lúðvígsson kaffihússgestur. Mynd: Guðmundur Bergkvist
Í eitt og hálft ár hafa PEPP, grasrótarsamtök fólks í fátækt, rekið vinsælt kaffihús í Breiðholti þar sem allt er ókeypis. Nú eru samtökin búin að missa húsnæðið og framtíðin óráðin. Rútína fjölda fastagesta er í uppnámi.

Lokadagurinn í dag

Blöðrum skreyttur salurinn bendir kannski til annars en í dag er sorgardagur á kaffihúsi PEPP í Mjóddinni í Reykjavík. „Í dag er bara lokadagurinn okkar með kaffihúsið. Það er búið að segja okkur upp húsaleigusamningi þannig að við þurfum að vera farin héðan 1. nóvember,“ segir Ásta Þórdís Skjalddal, samhæfingarstjóri PEPP og skrifstofustjóri EAPN, evrópskra samtaka sem berjast gegn fátækt, á Íslandi. 

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist
Ásta Þórdís Skjalddal leitar nú að nýju húsnæði fyrir kaffihúsið.

Daglegar venjur fjölda fastagesta í uppnámi

„Þetta kom bara eins og virkilegur rassskellur þegar við fréttum að það ætti að loka. Þetta er ekki bara kaffi og meðlæti, þetta er svo mikil félagsmiðstöð. Ég er fráskilinn og er mikið einn, þannig að þetta bjargar manni mikið að koma hérna og það er alveg sama hvort það séu útlendingar eða Íslendingar, þetta er orðið bara einn vinahópur,“ segir Frank Vígberg Snær Lúðvígsson, einn fastagestanna sem á eftir að sakna kaffihússins. 

Valdeflandi fyrir sjálfboðaliða sem þekkja fátæktina sjálfir

Kaffihúsið hefur verið starfrækt í eitt og hálft ár. Það er hugsað sem athvarf fyrir fólk sem glímir við fátækt eða félagslega einangrun og er rekið af sjálfboðaliðum sem þekkja hvort tveggja af eigin raun. Ásta Þórdís segir að sjálfboðaliðarnir séu hin hliðin á peningnum. „Þau eru þarna í nýju hlutverki sem veitendur í staðinn fyrir að vera þiggjendur, þau eru í ráðgjafarhlutverki og byggja á jafningjafræðslu og það er mjög valdeflandi fyrir þau.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist
Sóley Björk Axelsdóttir býður fram krafta sína á kaffihúsinu.

Sóley Björk Axelsdóttir, einn sjálfboðaliðanna, segir að þrátt fyrir að hún sé virk félagslega skipti kaffihúsið hana miklu máli. Hún komi þar flesta daga til að hitta fólk og spjalla, þó hún sé ekki á vakt. „Þetta er svolítið erfiður dagur, maður er glaður yfir því hvað þetta hefur gengið vel og hvað maður getur gefið fólki mikið en það er óskaplega leiðinlegt að þurfa að loka,“ segir hún. 

Tölvuhornið mikilvægt 

Oft koma vel yfir hundrað manns á dag við á kaffihúsinu; fólk úr ólíkum áttum, börn að fá sér bita eftir skóla, hælisleitendur, öryrkjar, fólk sem langar að hitta annað fólk. Það sem af er þessu ári hafa rúmlega 8000 þegið þar ókeypis veitingar, spjallað um daginn og veginn, fatað sig upp, sótt föndurnámskeið eða notað tölvu. „Margir úr okkar hópi eru að reka lífið sitt í gegnum snjallsímann og það getur verið afskaplega óheppilegt þegar þú ert að sækja um eitthvað á opinberum vettvangi eða þarft að senda einhver gögn með eða eitthvað slíkt,“ útskýrir Ásta Þórdís. 

Enginn rígur milli þjóðerna

Frank Vígberg Snær segir að það hafi orðið til stór vinahópur þvert á þjóðerni og Ásta Þórdís segist einmitt hreykin af því hversu vel öllum kemur saman. Ólíkt því sem stundum megi lesa úr kommentakerfinu sé enginn rígur á milli fátækra Íslendinga og hælisleitenda, til dæmis.

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist
Á næsta borði við Frank Vígberg Snæ sátu félagar frá Sýrlandi, Írak og Aserbaídsjan.

Giyam Sarvanush, stjórnmálamaður og blaðamaður flúði pólitísk vandamál í Aserbaídsjan og hefur sótt kaffihúsið í rúmt ár. „Við vorum að ræða það að við myndum vilja að kaffihúsið yrði áfram opið, það myndi hjálpa til við okkar aðlögun að samfélaginu,“ segir hann og hrósar starfsfólkinu fyrir góðar móttökur. 

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist
Giyam Sarvanush

Leigusali PEPP áformar að selja húsnæðið. Ásta Þórdís hefur vitað af því frá því í byrjun árs og hefur verið að svipast um eftir nýju húsnæði. Helst þarf það að vera á stað þar sem strætósamgöngur eru jafngreiðar og í Mjóddinni og aðgengi fyrir fatlaða jafngott. „Það er hugsanlegt að við getum fengið bráðabirgðahúsnæði en ég hef ekki fundið neitt sem er nógu heppilegt til að halda áfram þessari starfsemi sem er hér,“ segir hún. 

Frank Vígberg Snær Lúðvígsson kaffihússgestur.
Frank Vígberg Snær Lúðvígsson kaffihússgestur. Mynd: Guðmundur Bergkvist
Frank Vígberg Snær vonar að hægt verði að finna farsæla lausn til framtíðar með hjálp hins opinbera.

Frank Vígberg Snær vonar að hið opinbera hlaupi undir bagga með samtökunum. „Það væri mikill munur ef borgin eða ríkið gæti fundið húsnæði fyrir fólkið hérna. Það þyrfti þá að vera á þessu svæði því það eru svo margir í hjólastólum eða göngugrindum og þeir eru ekkert að fara upp neinar tröppur eða svoleiðis.“

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist
08.10.2021 - 21:01