Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Telur að um 40 skriður hafi fallið í Útkinn

Alls féllu um fjörutíu skriður í Útkinn í Þingeyjarsveit í vatnsveðrinu þar um síðustu helgi. Þá féllu stórar skriður langt norður fyrir byggðina. Viðbúnaðarstig í Kinninni hefur nú verið fært niður á óvissustig.

Staðan í Útkinn var endurmetin í dag en þar hefur hættustig verið í gildi alla vikuna. Hreinsunarstarfi er ekki lokið, vegurinn um sveitina er enn viðkvæmur vegna bleytu og því er áfram óvissustig. Það er enn mikið vatn við bæinn Björg sem varð langverst úti, þó aðeins sé tekið að sjatna á túnunum.

Taldi í kringum 40 skriður í Útkinn

Sérfræðingar Veðurstofunnar hafa nú unnið úr gögnum sem aflað hefur verið síðustu daga og náð að meta umfang skriðufallanna í Útkinn. „Þannig að við erum búin að ná ágætum útlínum utan um þær skriður sem hafa fallið. Sem að ég taldi áðan í kring um 40, með öllum minniháttar skriðum,“ segir Sigurdís Björg Jónasdóttir, á ofanflóðavakt Veðurstofunnar.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Solvi Andrason
Vegurinn um Útkinn er enn varasamur

Skriður féllu langt út fyrir byggðina

Einnig hafa fallið skriður í Kinnarfjöllum langt út fyrir byggðina í Útkinn. Meðal annars eru skriður í eyðivíkum við Skjálfandaflóa og á fleiri stöðum á þessu svæði. Þetta sést greinilega þegar siglt er þar með landinu. „Já okkur bárust fregnir frá sjómönnum og öðrum sem voru þarna á svæðinu að það hafi verið skriður í Naustavík og líka þarna í Ógöngufjallinu, grjótskriður, sem eru ekkert endilega óalgengar. En svo höfum við ekki fengið fregnir af neinu lengra út með Skjálfanda,“ segir Sigurdís.

Æskilegt að skoða stærra svæði

Bændur sem smöluðu eyðibyggðina á Flateyjardal í vikunni segjast ekki hafa séð ummerki um skriðuföll þar. Í dag fóru bændur svo í eftirleitir í Fjörður en þar falla gjarnan skriður við þessar aðstæður. Sigurdís segir vert að skoða það svæði nánar þegar færi gefst. „Til þess að kortleggja og athuga hvort það hafi fallið fleiri skriður í þessarri hrinu. En nú er að koma vetur og snjóhula skemmir fyrir, og skýjafar, þannig að það er svolítið erfitt að sjá. Þannig að þetta gæti orðið svolítið langtíma verkefni.“