Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Allir frambjóðendurnir sem misstu sæti kæra talninguna

08.10.2021 - 11:57
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Allir frambjóðendurnir fimm sem endurtalning atkvæða í Norðvesturkjördæmi hafði áhrif á hafa nú kært kosningarnar. Alls hafa sex kærur borist undirbúningskjörbréfanefnd og sú sjöunda er á leiðinni. Birgir Ármannsson, formaður nefndarinnar, segir óljóst hvenær vinnu nefndarinnar lýkur og ógjörningur að segja til um hvort kjósa þurfi aftur í Norðvesturkjördæmi. 

Nefndin fundaði í þriðja sinn í morgun. Engir gestir komu fyrir nefndina en nefndarmenn höfðu í nógu öðru að snúast við að fara yfir ágreiningsatkvæði og ýmis gögn. „Svo munum við líka fara yfir verklag okkar á næstunni varðandi þessar kærur sem eru komnar fram, og taka stöðuna á gagnaöflun og öðru slíku, við erum búin að fá töluvert af gögnum nú þegar en við eigum von á meiru,“ segir Birgir Ármannsson. 

Bíða kæru frá Karli Gauta

Allir frambjóðendurnir fimm sem misstu jöfnunarsæti sitt eftir endurtalninguna í Norðvesturkjördæmi hyggjast kæra kosningarnar. Rósa Björk Brynjólfsdóttir, frambjóðandi Samfylkingarinnar, Guðmundur Gunnarsson úr Viðreisn, Lenya Rún Taha Karim, frambjóðandi Pírata og Hólmfríður Árnadóttir, Vinstri grænum hafa þegar kært til Alþingis. Karl Gauti Hjaltason, Miðflokksmaður hefur kært kosningarnar til lögreglu og hyggst einnig leggja fram kæru til Alþingis. Til viðbótar hafa svo borist tvær kærur frá borgurum, annar þeirra er Magnús Davíð Norðdahl, oddviti Pírata í Norðvesturkjördæmi. Kærufrestur er ekki útrunninn og því gætu kærurnar orðið fleiri. 

Óvissa um framhaldið

Birgir segir óljóst hvenær vinnu nefndarinnar ljúki. Það gæti tekið einhverjar vikur. „Ég myndi segja að næsta vika skæri svolítið úr um hvað við getum gert þetta fljótt.“

Býstu við því að það þurfi að kjósa aftur í Norðvestur?

„Það er engin leið að segja,“ segir Birgir.