„Það verður enginn á svæðinu ef það er snjóflóðahætta“

07.10.2021 - 13:37
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Óvissu um opnun skíðasvæðisins á Siglufirði hefur verið eytt eftir að Veðurstofan veitti undanþágu til að starfrækja svæðið áfram á snjóflóðahættusvæði. Forstöðumaður segir að svæðið verði kannað alla morgna og ekki opnað ef snjóflóðahætta er til staðar.

Vilja færa svæðið ofar í fjallið

Í janúar féll stórt snjóflóð á skíðasvæðið í Skarðsdal í Sigulfirði. Svæðið var mannlaust þegar flóðið féll en olli engu að síður miklu tjóni á mannvirkjum. Skíðasvæðið er á skilgreindu hættusvæði og hafa hugmyndir verið um að færa svæðið ofar í fjallið. Forsvarsmenn sóttu meðal annars um styrk til þess hjá Ofanflóðasjóði en fengu afsvar rétt eftir að flóðið féll. Því var ákveðin óvissa um notkun þess í vetur en henni hefur nú verið eytt.

„Maður getur aldrei útilokað snjóflóð“

Egill Rögnvaldsson er forstöðumaður skíðasvæðisins í Skarðsdal. „Staðan er þannig núna að við ætlum bara að keyra á opnun og stefnum á að opna núna 4. desember en það verður bara á undanþágu eins og þetta er búið að vera undanfarin ár,“ segir Egill. 

En nú féll þetta flóð þarna í fyrra, þið óttist ekkert að eitthvað slíkt geti komið fyrir aftur? 

„Maður getur aldrei útilokað snjóflóð. Það er eitt sem er alveg klárt en þetta náttúrlega verður undir ströngu eftirliti með svæðið eins og undanfarin ár og svæðið tekið út á hverjum degi þannig að það verður enginn á svæðinu ef það er snjóflóðahætta.“