Minni úrkomu að vænta en enn hættustig í Út-Kinn

07.10.2021 - 15:22
default
 Mynd: RÚV - Sölvi Andrason
Enn er hættustig í gildi í Út-Kinn vegna úrkomu og aurskriðna og vegurinn þangað er lokaður fyrir almennri umferð. Íbúum er þó heimilt að dvelja á heimilum sínum en þeir hvattir til að fara um vegina í björtu.

Áfram hættustig

Samkvæmt tilkynningu frá Lögreglunni á Norðurlandi eystra verður staðan endurmetin í fyrramálið. Hættustig gildir áfram og verður vegurinn lokaður til morguns, föstudags. Úrkomu er að vænta á svæðinu í kvöld og í nótt en samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni verður hún minni en spáð hafði verið. Lögregla hvetur íbúa til að hafa samband ef þeir taka eftir breytingum í hlíðunum eða sjá nýjar skriður falla.