Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Hernum bannað að reka transkonu

South Korean Army armored vehicles cross a pontoon bridge during an exercise against possible attacks by North Korea near the demilitarized zone (DMZ) in Hwacheon, South Korea  Monday, April 1, 2013.  After weeks of war-like rhetoric, North Korean leader
 Mynd: AP - Yonhap
Suður-kóreski herinn var í morgun dæmdur fyrir að hafa ranglega vísað Byun Hee-soo úr hernum eftir að hún fór í kynleiðréttingaraðgerð. Sjö mánuðir eru síðan Byun fyrirfór sér vegna ákvörðunar hersins.

Byun gekk í herinn árið 2017, þá á þrítugsaldri. Hún fór til Taílands tveimur árum síðar í kynleiðréttingaraðgerð. Suður-Kórea er mun íhaldssamari en margar aðrar Asíuþjóðir þegar kemur að kyngervi og málefnum hinsegin fólks. Margir samkynhneigðir og transfólk reynir að láta lítið fyrir sér fara að sögn AFP fréttastofunnar. 

Metin með fötlun

Suður-kóreska varnarmálaráðuneytið mat það svo að hún væri með andlega eða líkamlega fötlun eftir að karlkyns kynfæri hennar voru fjarlægð. Nefnd innan ráðuneytisins úrskurðaði í janúar í fyrra að henni yrði vísað úr hernum.

Málið er það fyrsta sinnar tegundar sem fer fyrir dóm í Suður-Kóreu. Byun höfðaði það í ágúst í fyrra, en hún fannst látin á heimili sínu um sjö mánuðum síðar. Dómstóllinn í Daejeon segir að herinn hafi átt að samþykkja að hún væri kona eftir aðgerðina, líkt og dómstóll hafi gert á sínum tíma. Það hefði átt að vera ómögulegt fyrir herinn og dómsmálaráðuneytið að meta hana með andlega eða líkamlega fötlun og reka hana út frá því, segir jafnframt í dómnum að sögn AFP. Varnarmálaráðuneytið segist virða úrskurðinn og hefur ekki enn tekið ákvörðun um hvort honum verði áfrýjað.

Krefjast breytinga

Herskylda er hjá körlum í Suður-Kóreu. Byun var sjálfboðaliði og sagði á blaðamannafundi í fyrra að það hafi verið draumur hennar frá því í æsku að ganga í herinn.

Lát hennar var mikill harmdauði og leiddi til ákalla um að þingmenn í Suður-Kóreu samþykktu lög gegn mismunun. Alþjóðleg mannréttindasamtök hafa lýst áhyggjum sínum af framferði suður-kóreska hersins gagnvart hinsegin hermönnum. Þeim er bannað að stunda kynlíf með sama kyni og geta átt yfir höfði sér allt að tveggja ára fangelsisvist komist upp um þá.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV