Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hafnfirðingar, Garðbæingar og Akureyingar fá deilibíla

07.10.2021 - 16:18
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Svokallaðir deilibílar standa íbúum Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Akureyrar til boða. Slíkir bílar hafa síðustu ár verið á þrettán stöðum í borginni. 

Hafnfirðingar og Garðbæingar hafa tekið sína deilibíla í gagnið. Í Hafnarfirði verður stæði fyrir slíkan á horni Fjarðargötu og Linnetsstígs og í Garðabæ verður hann við Garðatorg. Deilibíll verður aðgengilegur á Akureyri á allra næstu dögum. 

Viðskiptin ganga þannig fyrir sig að fólk er með áskrift, nær sér í app og pantar og greiðir fyrir notkun á bílnum þar. Deilibílarnir eru samstarfsverkefni Zipcar deilibílaleigu, verkfræðistofunnar Eflu og sveitarfélaga, með styrk frá rannsóknasjóði Vegagerðarinnar. 

Deilibílar hafa verið í boði í Reykjavík

Þrettán slíkir bílar hafa verið í boði í Reykjavík síðustu ár og einn í Kópavogi. Gísli Þór Guðmundsson, verkefnastjóri hjá Zipcar, segir að deilibílunum hafi verið vel tekið. Þá hafi fólk nýtt í lengri og styttri ferðir. „Flestir nýta sér þetta í stuttar innanbæjarferðir, eru kannski að taka strætó á einhvern einn stað og svo nota þeir bílinn til þess að fara út í búð, versla, fara svo til baka, setja dótið heim og skila svo bílnum,“ segir Gísli Þór.

Aðspurður um hvernig gangi að halda þeim hreinum segir hann að þeir séu teknir í þrif á tveggja til þriggja daga fresti, eftir því hve mikil notkunin hafi verið. Í bensínbílunum sé bensínkort sem fólk geti nýtt til að setja á þá eldsneyti. 

Kanna ferðavenjur næstu 6 mánuði

Deilibílarnir eru tilraunaverkefni til sex mánaða í Hafnarfirði, Garðabæ og á Akureyri. Á meðan rannsakar Efla ferðavenjur og viðhorf fólks til bílanna. Deilibílar eru í notkun í löndum víða um heim og segir í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ að þeir geti leikið stórt hlutverk í vegferð fólks sem vilji sleppa að eiga einkabíl.