Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Fundu ekkert skip til að leysa Baldur af hólmi

Baldur dreginn í höfn af dráttarbátnum Fönix þegar hann varð vélarvana í apríl 2021
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Þrátt fyrir ítarlega leit hefur enn ekki fundist skip til að leysa Breiðafjarðarferjuna Baldur af hólmi. Eigi siglingar yfir Breiðafjörð að halda áfram þarf að laga hafnarmannvirki á Brjánslæk og í Stykkishólmi.

Vegagerðin hefur undanfarið skoðað framtíðarfyrirkomulag ferjusiglinga yfir Breiðafjörð. Baldur hinn nýrri hefur siglt á milli Stykkishólms og Brjánslækjar en það skip uppfyllir ekki nútímakröfur um aðgengi og útlit, þótt það uppfylli öryggiskröfur.

Núverandi samningur við rekstraraðila Baldurs, Sæferðir, gildir til 31. maí á næsta ári og er eins árs framlenging möguleg.

Á vef Vegagerðarinnar segir að ítarleg leit hafi verið gerð að skipi sem leyst gæti núverandi skip af á meðan unnið væri að framtíðarfyrirkomulagi ferjusiglinga á Breiðafirði. Ekkert skip fannst sem uppfyllti þær kröfur.

Hins vegar verði ekki litið framhjá því að ferjumannvirki, bæði á Brjánslæk og í Stykkishólmi, séu sérsniðin að gamla Baldri, sem var óvenju mjótt skip, og þau síðan aðlöguð að núverandi Baldri. Huga þurfi að endurnýjun þessara mannvirkja svo þau geti annað þeirri flutningsgetu sem er fyrirsjáanleg miðað við aukna framleiðslu afurða á Vestfjörðum.

Niðurstaða Vegagerðarinnar er sú að hagkvæmast sé að uppfylla samninginn við Sæferðir og nota gildistíma hans til hönnunar og útboðs á hafnarmannvirkjum á Brjánslæk og í Stykkishólmi, enda ný hafnarmannvirki forsenda fyrir áframhaldandi ferjurekstri á Breiðafirði.