Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Forsætisráðherra hættir að beiðni forseta

07.10.2021 - 03:51
Pedro Castillo, center, celebrates with his running mate Dina Boluarte after being declared president-elect of Peru by election authorities, at his party´s campaign headquarters in Lima Peru, Monday, July 19, 2021. Castillo was declared president-elect more than a month after the elections took place and after opponent Keiko Fujimori claimed that the election was tainted by fraud. (AP Photo/Guadalupe Prado)
 Mynd: AP
Pedro Castillo, forseti Perú, tilkynnti í gær að forsætisráðherra landsins hafi sagt af sér. Guido Bellido Ugarte var aðeins í tvo mánuði í embætti, og afsögn hans þýðir að stjórn hans verður öll leyst frá störfum. 

Í uppsagnarbréfi Bellido segir að ákvörðunin sé tekin að kröfu Castillo. Forsetinn greindi þó ekkert frekar frá ástæðu uppsagnarinnar, en sagði að nýr forsætisráðherra og ríkisstjórn verði kynnt síðar.

Ákvörðun Castillo að gera Bellido að forsætisráðherra í júlí var verulega umdeild, að sögn AFP fréttastofunnar. Bellido er 41 árs rafmagnsverkfræðingur, og nýgræðingur í stjórnmálum. Fjölmiðlar í Perú segja hann til rannsóknar vegna gruns um að hann hafi varið hryðjuverk í yfirlýsingum sínum skömmu eftir að hann hlaut þingsæti í júní. Í yfirlýsingunum leit út fyrir að hann væri að verja fólk sem studdi skæruliðahreyfinguna Skínandi stíg, sem barðist gegn ríkinu frá 1980 til 2000. 

Með ríkisstjórn Bellido lauk um sjö mánaða þrautargöngu Castillo við að mynda ríkisstjórn. Castillo er sjálfur vinstrisinnaður, og gekk honum illa að mynda stjórn sem þingið var sátt við, en þar eru hægri menn í meirihluta þingsæta. 

Stormasamt hefur verið í stjórnmálunum í Perú undanfarin ár. Spillingamál ollu því að tvisvar varð að skipta um forseta í landinu á einni og sömu vikunni í nóvember í fyrra. Sjö af síðustu tíu leiðtogum landsins hafa annað hvort verið dæmdir eða eru til rannsóknar fyrir spillingu.