Börn send aftur í sóttkví eftir einn dag í skólanum

07.10.2021 - 13:09
Mynd með færslu
 Mynd: Sölvi Andrason - RÚV
Nemendur 4. bekkjar í Brekkuskóla á Akureyri, sem mættu í skólann í gær eftir sóttkví, þurfa að fara aftur í sóttkví næstu sjö daga eftir að kennari í skólanum greindist smitaður. Starfsmaðurinn var í smitgát og einkennalaus.

Starfsmaðurinn einkennalaus 

Það var í gær sem í ljós kom að starfsmaðurinn, sem var í smitgát, greindist eftir seinna hraðpróf. „Því miður þá þurfa þeir nemendur sem loks komust í skólann í dag, aftur að fara í sóttkví. Búið er að skrá nöfn þeirra barna sem þurfa í sóttkví inn í kerfið og foreldrar þeirra væntanlega búnir að fá skilaboð frá rakningarteymi,“ segir í pósti sem foreldrar fengu frá skólastjórnendum í gær. 

Sjá einnig: Mörg hundruð manns í röð eftir sýnatöku á Akureyri

Rúmlega 1250 í sóttkví

Töluvert hefur verið um smit á Akureyri undanfarna daga en meðal þeirra sem hafa smitast eru börn á grunnskólaaldri. 55 covid-smit voru greind innanlands í gær. Af þeim smituðu voru 24 fullbólusettir. 70 prósent þeirra smituðu voru í sóttkví við greiningu. Á Norðurlandi eystra eru 127 í einangrun og rúmlega 1250 í sóttkví. Flest þeirra smituðu eru börn á grunnskólaaldri á Akureyri.