Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Stýrivaxtahækkunin ógn við húsnæðisöryggi, segir Drífa

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hækkun stýrivaxta er ógn við húsnæðisöryggi fólks að mati forseta ASÍ. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir hækkunina hafa verið mildari en gert var ráð fyrir. Vextir hafa tvöfaldast síðan í vor.

Hækkun stýrivaxta er ógn við húsnæðisöryggi fólks að mati forseta ASÍ. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir hækkunina hafa verið mildari en gert var ráð fyrir. Vextir hafa tvöfaldast síðan í vor. 

Í morgun tilkynnti peningastefnunefnd Seðlabankans um hækkun stýrivaxta. Þetta er í þriðja skiptið síðan í maí sem vextirnir eru hækkaðir, en þá voru þeir 0,75% og fóru upp í 1%. Í ágúst fóru þeir upp í 1,25%. Í morgun var svo tilkynnt um 0,25% hækkun og þeir eru þá orðnir1,5%.
Seðlabankastjóri segir hækkuninni beint gegn hækkunum á fasteignamarkaði og til að stemma stigu við verðbólgu. 

„Verðbólgan er ennþá talsverð eða við 4,5% markið en tónninn í Seðlabankanum var þó mildari en margir gerðu ráð fyrir og skýrist kannski af því að stærsti þátturinn í verðbólgunni er fasteignaverð hins vegar og innflutningsverðlag hins vegar,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

ASÍ sendi frá sér ályktun í dag þar sem segir að þetta geti leitt til þess að mánaðarleg greiðslubyrði lána hækki um tugi þúsunda hjá fjölda fólks. Húsnæðismál séu eitt stærsta kjaramálið.

„Enn á ný erum við að lenda í því að þetta ógnar húsnæðisöryggi fólks,“ segir Drífa Snædal forseti ASÍ. „Og enn á ný er krafan sú að það verði tekið almennilega á þessu þannig að viðfangsefni húsnæðismarkaðarins verði að fólk fái húsnæði á góðu verði en búi ekki við þennan stöðuga óstöðugleika.“

Að mati Samtaka atvinnulífsins ætti vaxtahækkunin að auka stöðugleika. „Hugsunin er sú að draga úr þessum sveiflum og vaxtatæki Seðlabankans er mjög virkt til þess sér í lagi núna þegar heimilin eru að miklu leyti komin úr verðtryggðum í óverðtryggð lán, þá bítur þetta fastar,“ segir Halldór Benjamín.

Finnst þér að það hefði mátt ganga lengra? „Ég held að þetta hafi verið skynsamleg ákvörðun í morgun.“

Eitt meginmarkmið Lífskjarasamningsins var að stuðla að vaxtalækkun og Drífa segir að stýrivaxtahækkanirnar gætu haft áhrif á næstu kjarasamningsviðræður. „Nú er komin vaxtahækkanahrina þannig að auðvitað munum við taka mið af því í næstu kjarasamningum ef hækkanirnar í kjarasamningunum fara allar í hækkun húsnæðisverðs,“ segir Drífa.