Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sendiherra Frakka snýr aftur til Canberra

Mynd með færslu
Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Jean-Yves Le Drian utanríkisráðherra. Mynd:
Frönsk yfirvöld tilkynntu í dag að sendiherra þeirra sneri aftur til Ástralíu. Þar með lýkur diplómatískum mótmælum Frakklandsstjórnar vegna riftunar Ástrala á milljónasamningi um kafbátakaup.

Jean-Yves Le Drian, utanríkisráðherra Frakklands segir sendiherrann snúa aftur með tvenn markmið í farteskinu. Annars vegar skuli hann skilgreina samband Ástralíu og Frakklands og hins vegar að vernda af krafti hagsmuni Frakka í tengslum við riftun Ástrala á kaupsamningnum.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti kallaði sendiherra landsins heim frá Washington og Canberra 17. september eftir að Bandaríkin, Bretland og Ástralía tilkynntu um Aukus-samkomulagið, nýtt varnarbandalag sem felur í sér víðtækt samstarf ríkjanna á Asíu-Kyrrahafssvæðinu.

Ástralir sögðu í kjölfarið upp kaupsamningi við franskt fyrirtæki um kaup á tólf kafbátum. Frakkar brugðust ókvæða við og utanríkisráðherrann sagði hegðun Ástrala og Bandaríkjamanna sviksamlega og rýtingsstungu í bak bandalagsríkis.

Ástralskir ráðamenn svöruðu með þeim hætti að Frökkum hefði átt að vera ætlun þeirra um riftun samningsins fulljós en að þeir hafi ætíð vilja halda áfram góðri samvinnu við Frakka. 

Sendiherra Frakka í Washington sneri aftur til starfa sinna þar eftir samtal Joe Bidens Bandaríkjaforseta og Macrons undir lok síðasta mánaðar.