Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kínverskur risi riðar til falls

06.10.2021 - 14:48
Mynd: EPA-EFE / EPA
Óvissan um afdrif kínverska fasteignafélagsins Evergrande undanfarnar tvær vikur hefur valdið talsverðum titringi í efnahagskerfi Kína, sem er það næst stærsta í heiminum. Og ekki aðeins sjást áhrifin á efnahag Kínverja, heldur allrar heimsbyggðarinnar.

39 þúsund milljarða króna skuld 

Evergrande er risafyrirtæki með mikil umsvif, en skuldirnar eru slíkar að flesta sundlar þegar þeir telja núllin í upphæðinni; yfir 300 milljarðar dollara, eða um 39 þúsund milljarðar króna takk fyrir. Kínverskt efnahagskerfi hefur á síðustu 25 til 30 árum vaxið með ógnarhraða í sérkennilegri samsuðu kommúnisma og kapítalisma. Spegillinn fékk Snæfríði Grímsdóttur aðjunkt í kínverskum fræðum við Háskóla Íslands til að segja okkur frá kínverskum efnahag og efnahagsstjórn.  

Annar veruleiki en hjá afa og ömmu

„Auðvitað er búin að vera mikil efnahagsleg upphefð í Kína" segir Snæfríður. „Við sjáum það að sérstaklega mín kynslóð getur farið í vinnuna, borgað alla reikninga í lok mánaðar og samt átt eitthvað eftir í sparnað eða keypt sér einhvern munað, sem oft eru raftæki. Þetta er mikil framför samanborið við afa og ömmu eða foreldra. Þetta er mjög breytt umhverfi fyrir þessa nýju kynslóð".

Einn af ríkustu mönnum Asíu

„Það sem við sjáum núna í efnahagskerfinu, í sambandi við Evergrande, er að ungt fólk er að koma undir sig fótunum og kaupa sína fyrstu íbúð. Hvað verður um þetta fólk núna? Evergrande er stofnsett rétt fyrir aldamótin 2000. Stofnandi fyrirtækisins verður einn af ríkustu mönnum Asíu".

Fyrirtæki rekið á lánum 

„Þetta er eitt stærsta fyrirtæki Kína með yfir 1300 verkefni í yfir 280 borgum. Þetta fyrirtæki er að mestu rekið á lánum. Hvaðan koma lánin? Jú, frá bönkum eða öðrum fjármálafyrirtækjum. Og þau þarf að borga. Unga fólkið sem hefur verið að kaupa sér íbúðir núna; hvað gerir það, ef fyrirtækið fer á hausinn? Hvað verður um lánastofnanirnar sem fá ekki greitt til baka frá Evergrande?"

Grípa stjórnvöld inn í ?

„Það sem hefur verið í umræðunni núna er hvort stjórnvöld í Peking stígi þarna inn í og hjálpa Evergrande. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Evergrande skuldar. Í Covid bylgjunni í fyrra skuldaði fyrirtækið 250 milljarða dollara. Núna er skuldin komin yfir 300 milljarða dollara.  En hvað mun gerast? Við sjáum að þessi staða fælir frá fjárfesta þannig að margir telja það mikilvægt fyrir stjórnvöld í Peking að passa að Evergrande fari ekki á hausinn".

Vafasamt fordæmi

„Hvernig fær fólk lán frá bönkunum ef Evergrande getur ekki borgað til baka? Hins vegar segja margir það ólíklegt að Peking komi fyrirtækinu til hjálpar. Rætt er um að stjórnvöld vilji ekki gefa það fordæmi að hjálpa einkafyrirtæki í fjárhagsvandræðum. Að því sögðu hafa stjórnvöld þó hvatt ríkisrekin fyrirtæki til þess að  aðstoða.

Það er svo sem erfitt að segja núna hvað gerist. Það fer eftir því hvernig Evergrande gengur að laga skuldina sem fyrirtækið er búið að setja sig í, en það verður áhugavert að fylgjast með því. Ég held að Kína geti haldið áfram að koma fólki á óvart, en það veltur svolítið á Evergrande og hvað verður um fyrirtækið".    

Fjárfesta í Afríku

Snæfríður segir að Kínverjar hafi hin síðari ár aukið fjárfestingar erlendis í gegnum átakið Belti og braut. Þetta hafi þeir gert til þess að tryggja sig gegn efnahagssveiflum innanlands. Þeir hafi tíðum beint sjónum sínum að fátækum Afríkuríkjum og verið gagnrýndir fyrir heimsvaldastefnu á Vesturlöndum og víðar.  Á móti komi  að erfiðlega gangi að fá fyrirtæki frá Vesturlöndum til að fjárfesta í þessum ríkjum og því sé fjármagnið frá Kína kærkomið. 

Hluti af stórveldakapphlaupi

„Kína er að sjálfsögðu að reyna að verða stærra á alþjóðavelli" segir Snæfríður. „Vissulega er Kína að stækka. Ég held samt að ákveðnir hlutir í pólitíkinni séu svolítið uppblásnir. Fjárfestingar Kínverja í Evrópu eru t.a.m. takmarkaðar, sérstaklega í samanburði við Bandaríkin. Ég held að þessi gagnrýni sé líka hluti af þessu stórveldakapphlaupi sem er að brjótast aftur út núna".  

Kapitalismi til að viðhalda kommúnisma

Það klóra sér margir í kollinum yfir þessu kerfi í Kína. Það er kommúnismi en það er jafnframt markaðsbúskapur, kapítalismi. Hvernig funkerar þetta saman?

„Það hefur lengi verið stefna ríkisstjórnarinnar að útlista fyrir fólki að þarna sé enn þá kommúnísk ríkisstjórn. Ef þú ætlar að vera með hreinan kommúnisma þá er hann dýr í framkvæmd og til þess að viðhalda honum þá verður að vera kapítalismi til þess að byggja upp efnahaginn, vera með mikla framleiðslu og halda hjólunum gangandi til þess síðan í lokamarkmiðinu, að vera í kommúnísku samfélagi".

Markmiðið að viðhalda kommúnisma

„Þess vegna er þessi efnahagslegi vöxtur svona hraður í Kína. Fólk er með miklu meira á milli handanna. Fólk er að stofna sín eigin fyrirtæki, fólk er að vinna enn þá meira. Það hefur alltaf verið mikil vinnuharka í Kína. Vissulega er ríkisstjórnin að reyna að búa til meira fjármagn inni í Kína og tryggja fjármagn erlendis frá til þess á endanum í endanlegu markmiði  að viðhalda kommúnisma". 

Mannréttindi víða í ólestri

Snæfríður segir að kínversk stjórnvöld hafi skrifað undir 2. hluta mannaréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna.  Ýmis mannréttindamál séu hins vegar víða í ólestri í Kína. Meðferðin á Tíbetum og Úígúrum, og réttindi hinsegin fólks séu fótum troðin, svo eitthvað sé nefnt.  Engu að síður sé nauðsynlegt að halda samskiptum við Kína opnum. 

Mikilvægt að loka ekki á Kína

„Leiðin er ekki að loka á Kína. Leiðin er einmitt að vera í samstarfi og halda áfram að skiptast á hugmyndum og hugmyndafræði í þeirri von að hún geti farið á milli og fólk geti kynnt sér hugsunarhátt beggja og lært af hvort öðru. Vonandi náum við þá líka þessum jafnréttindaframförum sem við höfum náð hér eða annars staðar í Evrópu" segir Snæfríður Grímsdóttir. 

 

Ath.: Færslunni hefur verið lítillega breytt frá upphaflegu útgáfunni.

 

 

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV